Stjórn og yfirstjórn

Formaður

Brynjólfur Bjarnason

Brynjólfur er fæddur árið 1946. Hann var fyrst kjörinn í stjórn Arion banka á hluthafafundi 20. nóvember 2014. Hann er ekki hluthafi í bankanum og er óháður stjórnarmaður. Brynjólfur er formaður stjórnar og situr í starfskjaranefnd, lánanefnd, endurskoðunarnefnd og tækninefnd stjórnar.

Brynjólfur útskrifaðist með MBA-gráðu frá University of Minnesota árið 1973. Hann útskrifaðist með cand.oecon.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1971.

Brynjólfur var framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands frá árinu 2012 til 2014. Frá 2007 og til ársins 2010 var hann forstjóri Skipta. Brynjólfur var forstjóri Símans á árunum 2002 til 2007 og forstjóri Granda hf. frá 1984 til 2002. Hann var framkvæmdastjóri AB bókaútgáfu frá árinu 1976 til 1983. Brynjólfur var einnig forstöðumaður hagdeildar VSÍ frá 1973 til 1976. Brynjólfur hefur mikla reynslu af stjórnarsetu og hefur setið í fjölmörgum stjórnum í gegnum tíðina og gegnt stjórnarformennsku í nokkrum þeirra.

Í dag situr Brynjólfur sem varamaður í stjórn Fergusson ehf. og stjórnarmaður í Marinvest ehf. og ISAL hf.

Varaformaður

Paul Horner

Paul er fæddur árið 1962. Hann var fyrst kjörinn í stjórn Arion banka á hluthafafundi þann 8. ágúst 2019. Paul er ekki hluthafi í bankanum og er óháður stjórnarmaður. Paul er varaformaður stjórnar, formaður lánanefndar stjórnar og situr í áhættunefnd, endurskoðunarnefnd og tækninefnd stjórnar.

Paul útskrifaðist með meistaragráðu í tónlist frá University of Oxford árið 1983 og er útskrifaður frá UK Chartered Institute of Bankers.

Paul býr að víðtækri alþjóðlegri reynslu af áhættustýringu og stjórnun á sviði viðskiptabanka-, fyrirtækjabanka-, einkabanka- og fjárfestingabankastarfsemi. Paul gegndi margvíslegum stjórnunar- og áhættustýringarstöðum hjá Barclays PLC á árunum 1988 til 2003. Árið 2003 hóf Paul störf hjá The Royal Bank of Scotland Group (RBS) þar sem hann sinnti störfum framkvæmdastjóra og öðrum yfirmannsstöðum hjá Royal Bank of Scotland PLC. Paul var jafnframt skipaður í ýmsar stjórnunarstöður, m.a. á sviði áhættustýringar, allt til ársins 2019. Árin 2012 til 2017 var Paul framkvæmdastjóri áhættustýringar hjá Coutts & Co Ltd og forstjóri Coutts & Co Ltd í Zurich frá 2016 til 2017. Árið 2018 var Paul framkvæmdastjóri áhættustýringar hjá Ulster Bank DAC, Dublin, og stjórnarmaður Coutts & Co Ltd í Zurich frá 2018 til 2021.

Í dag situr Paul í stjórn AIB Group P.L.C. og á sæti í endurskoðunarnefnd stjórnar AIB, rekstarnefnd stjórnar og sinnir formennsku í áhættunefnd stjórnar. Einnig situr hann í stjórn LHV (UK) Ltd og á sæti í endurskoðunar-, tilnefningarnefnd og starfskjaranefnd stjórnar, auk þess að sinna formennsku í áhættunefnd stjórnar LHV.

Stjórnarmaður

Gunnar Sturluson

Gunnar er fæddur árið 1967. Hann var fyrst kjörinn í stjórn Arion banka á hluthafafundi þann 8. ágúst 2019. Hann er ekki hluthafi í bankanum og er óháður stjórnarmaður. Gunnar situr í lánanefnd stjórnar, áhættunefnd stjórnar og er formaður endurskoðunarnefndar stjórnar.

Gunnar útskrifaðist með Cand.Jur gráðu frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1992, útskrifaðist með LL.M gráðu frá Háskólanum í Amsterdam árið 1995 og hlaut málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 1993 og fyrir Hæstarétti Íslands árið 1999.

Gunnar hefur starfað hjá LOGOS lögmannsþjónustu síðan 1992 og starfar þar í dag sem meðeigandi, áður starfaði hann sem faglegur framkvæmdastjóri á árunum 2001-2013. Gunnar er einnig forseti FEIF, alþjóðasamtaka Íslandshestafélaga og hefur sinnt þeirri stöðu frá 2014 og situr í stjórn Sviðslistamiðstöðvar Íslands. Gunnar hefur sinnt ýmsum stjórnarstörfum og var meðal annars stjórnarmaður í GAMMA hf. 2017-2019, stjórnarformaður Ríkisútvarpsins ohf. 2016-2017, var stjórnarmaður í gerðardómi Viðskiptaráðs Íslands, stjórnarformaður Íslenska dansflokksins 2013-2016 og kjörinn í landskjörstjórn af Alþingi 2013-2017. Þá sinnti Gunnar stundakennslu í samkeppnisrétti við lagadeild Háskóla Íslands 1995-2007.

Stjórnarmaður

Liv Fiksdahl

Liv er fædd árið 1965. Hún var fyrst kjörin í stjórn Arion banka á aðalfundi 20. mars 2019. Hún er ekki hluthafi í bankanum og er óháður stjórnarmaður. Liv sinnir formennsku í starfskjaranefnd stjórnar og tækninefnd stjórnar. Hún situr einnig í endurskoðunarnefnd stjórnar.

Liv útskrifaðist með gráðu í fjármálum og stjórnun frá Trondheim Business School (í dag NTNU) árið 1986. Árið 2018 kláraði Liv Programs in Big Data-Strategic Decisions and Analysis, The Innovative Technology Leader and Design Thinking frá Stanford University og Advanced Management Program for Executives in Management, Innovation and Technology frá Massachusetts Institute of Technology (MIT).

Liv gegndi áður ýmsum stjórnarstöðum hjá DNB og var hluti af framkvæmdastjórn bankans í 10 ár, m.a. sem aðstoðarframkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs/rekstrarsviðs (e. Group EVP, CIO/COO) og aðstoðarframkvæmdastjóri rekstarsviðs (Group EVP, COO and Operations). Liv hefur einnig víðtæka reynslu frá DNB og hefur gegnt ýmsum öðrum störfum innan bankans. Áður starfaði Liv m.a. sem viðskiptastjóri fyrirtækja hjá Danske Bank/Fokus Bank og Svenska Handelsbanken. Liv hefur setið í fjölmörgum stjórnum, m.a. hjá Scandinavian Airlines SAS AB, BankAxept, Sparebankforeningen, Doorstep, Finans Norge og í bæjarstjórn sveitarfélagsins Þrándheims.

Í dag er Liv aðstoðarframkvæmdastjóri innan fjármálaþjónustu hjá Capgemini Invent í Noregi og situr í stjórn hjá Posten Norge AS og Intrum AB. Hún situr einnig í umbreytingarnefnd Intrum AB.

Stjórnarmaður

Steinunn Kristín Þórðardóttir

Steinunn er fædd árið 1972. Hún var fyrst kjörin í stjórn Arion banka á hluthafafundi 30. nóvember 2017. Steinunn er hluthafi í bankanum (hlutafjáreign hennar er 12.000 hlutir) og er óháður stjórnarmaður. Steinunn sinnir formennsku í áhættunefnd stjórnar og situr í starfskjaranefnd stjórnar og tækninefnd stjórnar.

Steinunn er með meistaragráðu í alþjóðlegri stjórnun (MIM) frá Thunderbird, Arizona og BA gráðu í alþjóðaviðskiptum og stjórnmálafræði frá University of South Carolina.

Steinunn sat áður í ýmsum stjórnum í Evrópu og var í stjórn Bankasýslu ríkisins árið 2011. Steinunn starfaði áður sem framkvæmdastjóri hjá Beringer Finance í Noregi frá 2015 til 2017 og sem tímabundinn framkvæmdastjóri hjá Beringer Finance á Íslandi auk þess að gegna stöðu forstöðumanns alþjóðadeildar fyrirtækisins á sviði matvæla og sjávarfangs árið 2017. Þá stofnaði Steinunn ráðgjafafyrirtækið Akton AS og Akton Capital AS í Noregi og sinnti hlutverkum framkvæmdastjóra í tengslum við fjárfestingar og ráðgjöf. Hún starfaði áður hjá Íslandsbanka (síðar Glitni), sem framkvæmdastjóri starfsemi bankans í Bretlandi og fyrir það leiddi hún alþjóðalánveitingar sem forstöðumaður bankans.

Í dag vinnur Steinunn með tæknifyrirtækjum í Noregi bæði sem fjárfestir og ráðgjafi hvað varðar stefnumótun. Hugbúnaðarfyrirtækin sem hún vinnur með eru alþjóðleg uppskölunarfyrirtæki. Steinunn er stjórnarformaður Acton Capital AS og Akton AS og situr í stjórn Cloud Insurance AS. Hún er jafnframt stjórnarformaður Norsk-íslenska viðskiptaráðsins. Þá situr Steinunn í tilnefningarnefnd Símans. Enn fremur er hún leiðbeinandi ungra hæfileikaríkra kvenna og stofnandi Women Empower Women og er stjórnarformaður góðgerðasamtaka í Noregi.

Varamenn í stjórn

Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir, lögfræðingur, og Þröstur Ríkharðsson, hæstaréttarlögmaður.

Nánari upplýsingar um stjórn bankans má finna á vefsíðu bankans.

Bankastjóri

Benedikt Gíslason

Benedikt er fæddur árið 1974. Hann tók við starfi bankastjóra Arion banka 1. júlí 2019.

Benedikt hóf störf hjá FBA (síðar Íslandsbanka) árið 1998, sinnti margvíslegum stjórnunarstörfum hjá Straumi-Burðarás, var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá FL Group og framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs MP banka. Benedikt starfaði um tíma sem ráðgjafi hjá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu og var varaformaður starfshóps stjórnvalda um afnám fjármagnshafta á árunum 2013-2016. Hann sat í stjórn Kaupþings á árunum 2016-2018 og var ráðgjafi Kaupþings í málefnum Arion banka. Hann tók sæti í stjórn Arion banka í september 2018 og var í stjórn bankans þar til hann tók við starfi bankastjóra þann 1. júlí 2019.

Benedikt útskrifaðist með C.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1998.

Skipurit 2022

 

Þjónustusvið

Aðstoðarbankastjóri og framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs

Iða Brá Benediktsdóttir

Iða Brá Benediktsdóttir er fædd 1976. Hún tók við starfi framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs í júlí 2017 og starfi aðstoðarbankastjóra í apríl 2022.

Iða Brá hefur starfað hjá Arion banka og forverum hans frá árinu 1999. Frá þeim tíma hefur hún gegnt ýmsum störfum innan bankans, nú síðast sem framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs frá 2016 til 2017. Áður hafði Iða Brá m.a. verið forstöðumaður samskiptasviðs, einkabankaþjónustu og í fjárstýringu bankans. Iða hefur setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja; Sparisjóðs Ólafsfjarðar, AFL – sparisjóðs, fasteignafélagsins Landfesta og HB Granda hf. Iða Brá er varaformaður stjórnar Varðar trygginga hf.

Iða Brá er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Hún er með MSc í fjármálum frá Erasmus Graduate School of Business í Hollandi og með próf í verðbréfaviðskiptum.

Framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs

Hákon Hrafn Gröndal

Hákon Hrafn Gröndal er fæddur 1988. Hann tók við starfi framkvæmdastjóra fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs í apríl 2022.

Hákon Hrafn Gröndal hóf störf hjá Arion banka 2012 og starfaði fyrst í útibúi bankans á Höfða. Síðan þá hefur Hákon sinnt ýmsum störfum innan bankans tengdum fjármálaráðgjöf og útlánum og setið í ýmsum stjórnum og nefndum fyrir hönd bankans. Hákon hefur starfað á fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviði frá árinu 2013.

Hákon er viðskiptafræðingur frá Griffith University, með MSc í fjármálum fyrirtækja frá Háskóla Íslands og með próf í verðbréfaviðskiptum.

Framkvæmdastjóri markaða

Jóhann Möller

Jóhann Möller er fæddur 1979. Hann tók við starfi framkvæmdastjóra markaða í maí 2022.

Jóhann Möller hefur verið framkvæmdastjóri Stefnis frá árinu 2020. Hann hefur starfað á fjármálamarkaði í rúm 20 ár og hjá Stefni frá árinu 2006 við stýringu á innlendum hlutabréfasjóðum auk þess sem hann veitti hlutabréfateymi félagsins forstöðu á árunum 2017-2020.

Jóhann er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með próf í verðbréfaviðskiptum.

Stoðsvið

Yfirlögfræðingur

Birna Hlín Káradóttir

Birna Hlín er fædd árið 1978. Hún tók við starfi yfirlögfræðings Arion banka í september 2019 og tók sæti í framkvæmdastjórn í júní 2020.

Frá árinu 2016 var Birna meðeigandi og yfirlögfræðingur Fossa markaða. Hún var yfirlögfræðingur Straums fjárfestingarbanka á árunum 2011 til 2015. Birna Hlín starfaði hjá Straumi-Burðarás fjárfestingabanka á árunum 2007 til 2011 og var yfirlögfræðingur félagsins frá árinu 2009. Birna hefur kennt lög um fjármálamarkaði o.fl. í Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands. Hún hefur setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja hérlendis og erlendis og er í dag stjórnarmaður í Lögmannafélagi Íslands.

Birna Hlín er með AMP-gráðu frá IESE Business School í Barcelona og lögfræðingur frá Háskóla Íslands. Hún er með málflutningsréttindi og próf í verðbréfaviðskiptum.

Framkvæmdastjóri fjármálasviðs

Ólafur Hrafn Höskuldsson

Ólafur Hrafn er fæddur árið 1981. Hann tók við starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs í september 2021.

Ólafur Hrafn hóf störf hjá Arion banka árið 2019 er hann tók við starfi forstöðumanns stefnumótunar og þróunar á skrifstofu bankastjóra. Ólafur starfaði hjá Royal Bank of Scotland í London og New York á árunum 2010 til 2016. Árið 2016 tók hann við starfi framkvæmdastjóra hjá Títan fjárfestingafélagi sem hann sinnti til ársins 2019. Áður vann Ólafur Hrafn meðal annars hjá CreditInfo í Þýskalandi og Straumi fjárfestingabanka. Ólafur situr í stjórn Varðar og Landeyjar.

Ólafur Hrafn útskrifaðist með cand.oecon-gráðu frá Háskóla Íslands árið 2006 með reikningshald og endurskoðun sem aðalgrein. Hann hefur öðlast löggildingu til fjárfestingaráðgjafar í Bretlandi (UK FSA approved person status) og í Bandaríkjunum (US FINRA series 79).

Framkvæmdastjóri upplifunar viðskiptavina

Steinunn Hlíf Sigurðardóttir

Steinunn Hlíf er fædd árið 1974. Hún tók við starfi framkvæmdastjóra upplifunar viðskiptavina í september 2021.

Steinunn Hlíf var framkvæmdastjóri ráðgjafar og þjónustu hjá Verði og sat í framkvæmdastjórn félagsins á árunum 2008 til 2021. Hún starfaði hjá Kaupþingi/KB banka á árunum 1999 til 2005 og gegndi þar m.a. starfi markaðsstjóra. Á árunum 2005 til 2008 starfaði Steinunn sem markaðsstjóri Sjóvár og sem forstöðumaður á sölu- og markaðssviði hjá Landsbankanum.

Steinunn er með BA-gráðu í viðskiptafræði frá Flagler College í Flórída í Bandaríkjunum.

 

Framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs

Styrmir Sigurjónsson

Styrmir er fæddur árið 1974. Hann tók við starfi framkvæmdastjóra upplýsingatæknisviðs Arion banka í mars 2020.

Frá árinu 2009 starfaði Styrmir hjá Natera í Bandaríkjunum, en Natera sérhæfir sig á sviði erfðagreiningar og er skráð í Nasdaq CM kauphöllina. Styrmir gegndi frá árinu 2012 ýmsum stjórnunarstörfum hjá Natera og var framkvæmdastjóri rannsóknar og vöruþróunar frá árinu 2017. Áður en Styrmir höf störf hjá Natera starfaði hann hjá Straumi fjárfestingarbanka, FL Group og fjárfestingarbankanum Citi.

Styrmir er með doktors- og meistarapróf í rafmagnsverkfræði frá Stanford og CS-próf í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands.

Innra eftirlit

Regluvörður

Andrés Fjeldsted

Andrés Fjeldsted er fæddur árið 1984. Hann tók við starfi regluvarðar Arion banka í apríl 2022.

Andrés starfaði við lögfræðiráðgjöf hjá Arion banka frá árinu 2015. Helstu verkefni hans tengdust eignastýringu, yfirstjórn og var hann um nokkurra ára skeið ritari stjórnar bankans.

Andrés er með mag. jur.-gráðu frá lagadeild Háskóla Íslands og BA-gráðu í hagfræði, heimspeki og stjórnmálafræði frá University of Essex.

Innri endurskoðun

Anna Sif Jónsdóttir

Anna Sif er fædd árið 1971. Hún var skipuð forstöðumaður innri endurskoðunar Arion banka í september 2022.

Anna Sif starfaði sem innri endurskoðandi Kviku banka hf. frá árinu 2013. Áður starfaði hún sem fjármálastjóri Regins frá 2009 til 2013 og Landic Property Iceland (Reitir) frá 2007 til 2009. Anna var sérfræðingur og verkefnastjóri hjá KPMG frá 2000 til 2006.

Anna Sif er með BA-gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands og cand. oecon-gráðu frá sama skóla. Hún er löggiltur endurskoðandi og með próf í verðbréfaviðskiptum.

Framkvæmdastjóri áhættustýringar

Úlfar Freyr Stefánsson

Úlfar Freyr er fæddur árið 1981. Hann tók við starfi framkvæmdastjóra áhættustýringar í maí 2020.

Úlfar Freyr hóf störf í áhættustýringu Arion banka árið 2013 eftir að hafa starfað hjá Kaupþingi frá árinu 2010, m.a. sem framkvæmdastjóri áhættustýringar. Úlfar var forstöðumaður eignasafnsáhættu Arion banka á árunum 2013-2015 er hann tók við sem forstöðumaður efnahagsáhættu innan áhættustýringar.

Úlfar er með doktors- og meistarapróf í stærðfræði frá Georgia Institute of Technology og B.S. gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur jafnframt lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Breytingar á árinu

Í aprílmánuði tók Iða Brá Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs, jafnframt við starfi aðstoðarbankastjóra. Á sama tíma tók Hákon Hrafn Gröndal, sem gegnt hafði starfi lánastjóra á fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviði, við starfi framkvæmdastjóra sviðsins og Jóhann Möller, forstjóri Stefnis, tók við starfi framkvæmdastjóra markaða.