Markaðir

Arion banki veitir margvíslega þjónustu þegar kemur að markaðsviðskiptum, sjóðastýringu og eignastýringu. Eignastýringarþjónusta bankans snýr að banka- og fjármálaþjónustu fyrir eignameiri viðskiptavini í Premíu, einkabankaþjónustu, eignastýringu fyrir fagfjárfesta og rekstri lífeyrissjóða. Stefnir, dótturfélag Arion banka, er sjálfstætt starfandi fjármálastofnun sem annast stýringu á fjölbreyttu úrvali verðbréfa- og sérhæfðra sjóða. Arion banki, ásamt dótturfélögum, er leiðandi í eignastýringu á Íslandi með um 1.298 milljarða króna í stýringu.

Markaðsviðskipti

Arion banki sinnir miðlun verðbréfa fyrir innlenda og erlenda viðskiptavini bankans. Sérfræðingar bankans veita aðstoð við og hafa milligöngu um viðskipti með skráð verðbréf á öllum helstu verðbréfamörkuðum heims. Til viðbótar aðstoðar Arion banki viðskiptavini við kaup í sjóðum Stefnis og sjóðum í rekstri alþjóðlegra fjármálafyrirtækja.

Viðskiptavinir leita í ríkum mæli til bankans vegna markaðsviðskipta sinna og hefur bankinn undanfarin ár haft sterka stöðu í veltu verðbréfa á Nasdaq Iceland. Á árinu 2022 var Arion banki með hæstu hlutdeild allra markaðsaðila í miðlun hlutabréfa og skuldabréfa í kauphöll Nasdaq Iceland. Á hlutabréfamarkaði var velta bankans 445 milljarðar króna sem samsvarar 21,5% hlutdeild og er það sjöunda árið í röð sem Arion banki er með mestu hlutabréfaveltu allra markaðsaðila í kauphöll Nasdaq Iceland. Á skuldabréfamarkaði var velta bankans 518 milljarðar króna og hlutdeildin 19,8%. Arion banki var einnig með hæstu hlutdeild markaðsaðila á First North markaðinum eða 35,4%.

Markaðshlutdeild og sæti Arion banka í hlutabréfum á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland

Breyttar efnahagshorfur á heimsvísu höfðu áhrif á verðbréfamarkað

Það sem einkenndi hlutabréfamarkaðinn á Íslandi á árinu var færsla frá vaxtamarkaði FTSE vísitölunnar upp í FTSE Global Equity Index Series (GEIS). FTSE GEIS vísitalan inniheldur um 16 þúsund hlutabréf skráðra félaga frá 48 löndum, bæði þróuðum og nýmarkaðsríkjum. Ísland er í flokki nýmarkaðsríkja og vegur um 0,14% af vísitölunni. Innleiðingin hafði þau áhrif að innflæði frá erlendum vísitölusjóðum jókst verulega. Áhrif stríðsins í Úkraínu á hagkerfi heimsins ásamt hækkandi vaxtastigi ollu því að hlutabréfaverð í helstu kauphöllum heims sveiflaðist mikið á árinu og var íslenskur hlutabréfamarkaður engin undantekning. Velta í viðskiptum með hlutabréf á Nasdaq á Íslandi dróst saman um 2% milli ára og samanlagt virði skráðra hlutabréfa á Nasdaq á Íslandi minnkaði um 2 milljarða á árinu 2022 þrátt fyrir almennt góð uppgjör skráðra félaga. Aukin fjölbreytni með nýskráningum Alvotech, Ölgerðarinnar, Nova og Amaroq í kauphöll settu svip sinn á árið.

Sögulegt ár er að baki á skuldabréfamörkuðum á heimsvísu. Verðbólguskot og hækkandi stýrivextir á heimsvísu léku skuldabréfafjárfesta grátt á árinu og var ávöxtun skuldabréfa almennt talin vera ein sú versta frá upphafi mælinga. Velta í skuldabréfaviðskiptum jókst um 12% en ávöxtunarkröfur á óverðtryggð og verðtryggð ríkisbréf hækkuðu mikið á árinu. Arion banki gaf út víkjandi skuldabréf undir lok árs við góðar undirtektir fjárfesta, en bankinn seldi þá bréf fyrir samanlagt 12 milljarða króna.

Áhersla á vöruþróun og verðbréfaviðskipti í Arion appinu

Áhugi almennings á hlutabréfum hefur vaxið hröðum skrefum. Arion banki hélt áfram að þróa verðbréfa- og sjóðaviðskiptalausn sína í Arion appinu. Sívaxandi hópur fjárfesta nýtir sér þessa hagkvæmu leið til fjárfestingar.

Viðskiptavinir Arion banka, bæði einstaklingar og lögaðilar, geta í dag stofnað almenn vörslusöfn á einfaldan, fljótlegan og öruggan máta með rafrænni undirritun samninga og annarra skjala. Viðskiptavinir hafa tekið þessari þjónustu vel, þar sem hún gerir þeim mun auðveldara að undirrita skjöl, hvar og hvenær sem er.

Megináhersla Arion banka í verðbréfa- og sjóðaviðskiptum er nú sem fyrr að veita stækkandi hópi viðskiptavina góða þjónustu og aðgang að framúrskarandi þekkingu og lausnum. Áfram verður lögð áhersla á vöruþróun til að skapa viðskiptavinum fleiri tækifæri til ávöxtunar og áhættudreifingar. 

Sjóðastýring

Stefnir stýrir fjármunum í eigu viðskiptavina með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Ábyrgar fjárfestingar, fjölbreyttir fjárfestingarkostir og ítarleg upplýsingagjöf eru lykilatriði í starfsemi Stefnis.

Á árinu stofnaði Stefnir fjóra nýja sjóði og af þeim voru tveir fyrir almenna fjárfesta. Stefnir – Sustainable Arctic Fund einblínir á hlutabréfafjárfestingar á Norðurslóðum með sjálfbærni að leiðarljósi. Stefnir – Innlend hlutabréf Vogun fjárfestir í innlendum hlutabréfum og má nýta skuldsetningu og afleiður. Aðrir sjóðir eru Stefnir – Multi Strategy Fund II sem hefur víðtækar fjárfestingarheimildir og SÍL 2 sem er sérhæfður skuldabréfasjóður.

Stórir áfangar náðust í sérhæfðum fjárfestingum en slit SÍA I, elsta framtakssjóðs Stefnis, eftir sölu síðustu eignar sjóðsins og sölu SÍA III á Reykjavík Edition hótelinu við Austurhöfn má telja til verkefna sem skiluðu góðum árangri.

Þrátt fyrir erfitt ástand markaða fjölgaði sjóðfélögum hjá Stefni um 5,5%, m.a. vegna velheppnaðrar markaðssóknar og greiðs aðgengis að sjóðum Stefnis í gegnum stafrænar dreifileiðir sem eru í dag ráðandi í viðskiptum með sjóði.

Eignastýring

Þegar kemur að eignastýringu stýrir bankinn fjármunum fyrir hönd viðskiptavina samkvæmt fyrir fram ákveðinni fjárfestingarstefnu hvers og eins. Eignastýring byggist á trausti og ábyrgð gagnvart viðskiptavinum, hagsmunaaðilum og samfélaginu öllu.

Heildareignir í stýringu hjá Arion banka og dótturfélögum
Milljarðar króna

Samfélagsábyrgð og ábyrgar fjárfestingar

Arion banki hefur innleitt í starfshætti sína og starfsreglur verklag ábyrgra fjárfestinga sem felur í sér að við stýringu eigna er horft til þriggja grunnþátta sjálfbærni; umhverfis- og félagsþátta og stjórnarhátta (UFS). Þannig er ekki einvörðungu horft til fjárhagslegra þátta heldur einnig annarra þátta sem taldir eru viðeigandi við greiningu á fjárfestingum og uppbyggingu eignasafna.

Bankinn er aðili að Meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar, United Nations Principles of Responsible Investments (UN PRI), sem eru virk alþjóðleg samtök eignastýringaraðila og fjármagnseigenda um málefni ábyrgra fjárfestinga. Sem aðili að PRI er framvinduskýrsla eignastýringar bankans um ábyrgar fjárfestingar birt árlega.

    

Einkabankaþjónusta – persónuleg þjónusta

Einkabankaþjónusta Arion banka er víðtæk persónuleg fjármálaþjónusta fyrir efnameiri einstaklinga, fyrirtæki, sjóði og stofnanir. Einkabankaþjónusta felur í sér fjármálaþjónustu sniðna að þörfum hvers viðskiptavinar. Hver viðskiptavinur hefur sinn eigin viðskiptastjóra sem heldur utan um eignasafn viðskiptavinarins og fjárfestir með markmið hans að leiðarljósi. Viðskiptastjórinn fylgist náið með hreyfingum á markaði og gerir breytingar samkvæmt fyrir fram ákveðinni fjárfestingarstefnu sem mótuð er í samræmi við þarfir viðskiptavinarins.

Viðskiptastjórar í einkabankaþjónustu eru í nánu og góðu sambandi við viðskiptavini sína. Reglulegir fundir ásamt ítarlegum yfirlitum um stöðu og ávöxtun eru send ársfjórðungslega og viðskiptavinir geta jafnframt nálgast greinargóð yfirlit í netbanka og appi, auk þess sem símtöl eru tekin reglulega með viðskiptavinum.

Viðskiptavinir Einkabankaþjónustu eru sjálfkrafa hluti af Premíu þjónustu bankans og fá þar með hagstæð innlána-, útlána- og kreditkortakjör hjá bankanum. Premía þjónusta tryggir viðskiptavinum greiðari leið að þjónustu og færustu sérfræðingum bankans.

Árið 2022 var erfitt ár á fjármálamörkuðum, hvort sem horft er til aðstæðna hér innanlands eða erlendis, skuldabréfa eða hlutabréfa. Í upphafi ársins var samskiptamáti við viðskiptavini enn háður takmörkunum tengdum Covid-19, en fljótlega á öðrum ársfjórðungi breyttist það til batnaðar og hafði strax jákvæð áhrif á öll samskipti við viðskiptavini.

Eignastýring fyrir fagfjárfesta

Arion banki veitir fagfjárfestum umfangsmikla og persónulega þjónustu. Nokkrir af stærstu fagfjárfestum landsins, meðal annars lífeyrissjóðir, séreignasjóðir og tryggingafélög, nýta þjónustu Arion banka sem sér um stýringu eignasafna þeirra, að hluta eða í heild.

Áhersla er á klæðskerasniðna þjónustu, fagleg vinnubrögð og virka eignastýringu milli og innan eignaflokka. Áherslur eignasafna eru aðlagaðar hverju sinni í takt við breytingar á markaði í samræmi við fjárfestingarstefnu sem viðskiptavinurinn skilgreinir.

Þjónusta bankans við fagfjárfesta felst meðal annars í reglulegum og virkum samskiptum þar sem farið er yfir helstu hreyfingar, þróun og horfur. Bankinn aðstoðar fjárfesta einnig við mótun fjárfestingarstefnu, stefnu um ábyrgar fjárfestingar, hluthafastefnu sem og framkvæmd og upplýsingagjöf um framfylgni stefnanna.

Síðastliðið ár var krefjandi fyrir eignasöfn í stýringu í ljósi markaðsaðstæðna. Árangur í stýringu var þó vel viðunandi og megináherslur sem lagt var upp með gengu eftir.

Rekstur og stýring lífeyrissjóða
– stafræn þjónusta og betra aðgengi að upplýsingum

Arion banki sérhæfir sig í rekstri og stýringu eigna fyrir lífeyris- og séreignarsjóði.

  • Frjálsi lífeyrissjóðurinn, stærsti frjálsi lífeyrissjóður landsins, hefur átt í farsælu samstarfi við Arion banka og forvera hans allt frá árinu 2001. Frjálsi býður upp á bæði skyldusparnað og viðbótarsparnað og er sérstaða sjóðsins einkum fólgin í almennu valfrelsi og séreignarmyndun skyldusparnaðar sem leiðir af sér aukinn erfanleika og sveigjanleika í útgreiðslum. Frjálsi hefur notið mikillar velgengni síðustu ár, m.a. hlotið 14 alþjóðleg verðlaun frá hinu virta fagtímariti IPE, fleiri verðlaun en nokkur annar íslenskur lífeyrissjóður. Árið 2022 var nafnávöxtun fjárfestingarleiða sjóðsins á bilinu 0,7% til -11,2%. Um 25 þúsund sjóðfélagar velja að greiða í Frjálsa og var stærð hans í lok árs um 400 milljarðar króna.

  • Lífeyrisauki, viðbótarsparnaður Arion banka, og stærsti séreignarsjóður landsins sem eingöngu ávaxtar viðbótarsparnað, var stofnaður af forvera Arion banka árið 1999. Sérstaða sjóðsins er fjölbreytt úrval fjárfestingarleiða, alls sjö leiðir auk Ævilínu. Árið 2022 var nafnávöxtun fjárfestingarleiða á bilinu 9,3% til -9,8%. Um 24 þúsund sjóðfélagar velja að greiða í Lífeyrisauka og var stærð hans í lok árs um 131 milljarður króna.

  • Aðrir lífeyrissjóðir í rekstri og stýringu hjá eignastýringu Arion banka eru EFÍA, Lífeyrissjóður Rangæinga og LSBÍ.

Þegar kemur að lífeyrismálum leggur Arion banki mikla áherslu á að efla sjálfsafgreiðslu og aðra stafræna þjónustu við viðskiptavini. Sjálfsafgreiðslan fer einkum fram í Arion appinu en einnig á Mínum síðum sjóðanna. Í Arion appinu fá viðskiptavinir yfirsýn yfir lífeyrissparnað sinn og tækifæri til sjálfsafgreiðslu, en þar er hægt að gera samning um lífeyrissparnað og framkvæma helstu aðgerðir á einfaldan hátt. Viðbrögð viðskiptavina hafa ekki látið á sér standa og hefur fjöldi nýrra lífeyrissamninga í appinu farið langt fram úr væntingum. Arion appið færir lífeyrissparnaðinn nær eigendum sínum og eykur áhuga þeirra og vitneskju um sparnaðinn. Á næstu misserum munu fleiri nýjungar bætast við.

Á hefðbundnum opnunartíma er aðgangur að lífeyrisráðgjöfum gegnum netspjall, síma og tölvupóst. Boðið er upp á fundi í gegnum fjarfundabúnað eða í höfuðstöðvum bankans. Til að nýta tíma viðskiptavina og ráðgjafa sem best er lögð áhersla á fyrirframbókaða fundi. Hefur þessi aukna áhersla á sjálfvirknivæðingu og fjarfundi mælst vel fyrir.

Árangur viðskiptavina

Starfsfólk Arion banka og Stefnis mun áfram leitast við að skapa og finna fjárfestingarkosti fyrir viðskiptavini til að ávaxta fjármuni þeirra eins og best verður á kosið. Áfram verður unnið að því að skapa ávinning fyrir viðskiptavini með góðri þjónustu, ávöxtun, faglegum vinnubrögðum og markvissri áhættustýringu.