Um Arion banka

Arion banki og dótturfélög veita íslensku samfélagi alhliða fjármálaþjónustu. Stefna Arion banka er að standa öðrum framar með snjöllum og traustum fjármálalausnum sem skapa viðskiptavinum, hluthöfum og samfélaginu öllu verðmæti til framtíðar. Bankinn leggur áherslu á að byggja upp langtímaviðskiptasamband við viðskiptavini sína og nýtur sérstöðu hvað varðar framsækna og nútímalega bankaþjónustu. Með liðsinni við viðskiptavini stuðlar bankinn að sameiginlegum vexti og framförum í íslensku samfélagi.

Arion banki þjónar heimilum, fyrirtækjum, stofnunum og fjárfestum á þremur þjónustusviðum; viðskiptabankasviði, fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviði og mörkuðum. Dótturfélögin Stefnir og Vörður auka enn frekar þjónustuframboð bankans. Stefnir er eitt stærsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins og Vörður tryggingar býður upp á skaða- og líftryggingar og er það tryggingafélag á Íslandi sem er í hröðustum vexti. Fjölbreytt þjónustuframboð Arion banka felur í sér að tekjugrunnur starfseminnar er breiður og lánasafn bankans er vel dreift á milli einstaklinga og fyrirtækja. Þá dregur hátt hlutfall íbúðalána og góð dreifing útlána á milli atvinnugreina úr útlánaáhættu.

Bankinn hefur verið leiðandi á sviði stafrænna lausna og nýsköpunar. Fjöldi nýrra stafrænna lausna hefur verið kynntur á undanförnum árum og stuðla þær að bættri þjónustu við viðskiptavini og aukinni skilvirkni í starfseminni sem til lengri tíma litið leiðir til lægri rekstrarkostnaðar víða í bankanum. Markvisst hefur verið unnið að því að einfalda skipulag bankans og hagræða í húsnæðismálum og útibúaneti.

Arion banki hefur sett sér umhverfis- og loftslagsstefnu og hefur á síðustu árum boðið viðskiptavinum sínum græna fjármálaþjónustu, svo sem græn bílalán, fyrirtækjalán, innlán og íbúðalán. Arion banki hefur gefið út heildstæða græna fjármálaumgjörð sem nær til fjármögnunar bankans og lánveitinga. Bankinn hefur því skuldbundið sig til að nýta það fjármagn sem hann sækir á lánsfjármörkuðum í tengslum við grænu umgjörðina í græn lán til fyrirtækja og einstaklinga eins og þau eru skilgreind í umgjörðinni.

Arion banki er fjárhagslega sterkur banki sem leggur áherslu á að starfa á ábyrgan hátt í sátt við samfélag og umhverfi. Bankinn leggur áherslu á samkeppnishæfar arðgreiðslur til hluthafa. Arion banki er skráður á aðallista kauphallanna Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm.

Arion banki er íslenskur banki með starfsemi á Íslandi. Bankinn horfir jafnframt til fyrirtækja á norðurslóðum og fyrirtækja í sjávarútvegstengdum greinum í Evrópu og Norður-Ameríku.

Helstu þættir þjónustunnar

Fyrirtækjaþjónusta

  • Alhliða fjármála- og tryggingaþjónusta sem sniðin er að þörfum hvers viðskiptavinar.
  • Meðal þjónustuþátta eru fjölbreytt úrval ávöxtunarleiða, fjármögnun, ráðgjöf, fjárstýring, tryggingar, innheimtuþjónusta og netbanki.
  • Víðtæk ráðgjöf og þjónusta í tengslum við fjárhagslega umbreytingu fyrirtækja.
  • Stór hluti eigna bankans er útlán til fyrirtækja og endurspegla þau vel samsetningu efnahagslífsins.
  • Áhersla á persónulega þjónustu og góða yfirsýn yfir þarfir viðskiptavinarins.

Markaðir

  • Alhliða þjónusta við fjárfesta.
  • Markaðsviðskipti sjá um miðlun verðbréfa, gjaldeyris og afleiða fyrir viðskiptavini bankans á innlendum og erlendum mörkuðum.
  • Eignastýringin ávaxtar fjármuni viðskiptavina með hagsmuni þeirra að leiðarljósi.
  • Arion banki rekur lífeyrissjóði sem taka bæði á móti viðbótarlífeyrissparnaði og skyldulífeyrissparnaði.
  • Sala sjóða sem stýrt er af stærstu sjóðafyrirtækjum heims.
  • Aðstoð við kaup í sjóðum Stefnis sem er sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki í eigu Arion banka. Hjá Stefni geta viðskiptavinir valið úr fjölbreyttu úrvali verðbréfa- og sérhæfðra sjóða. Nánari upplýsingar um Stefni er að finna á www.stefnir.is.

Einstaklingsþjónusta

  • Alls 13 útibú og afgreiðslur víða um land.
  • Stafræn fjármálaþjónusta, svo sem netbanki og app, og persónuleg þjónusta í útibúum og þjónustuveri bankans.
  • Fjölbreytt fjármálaþjónusta, svo sem útlán, ráðgjöf um sparnaðarleiðir, greiðslukort og lífeyrissparnað auk víðtæks úrvals af tryggingum í samstarfi við dótturfélag bankans, Vörð.
  • Áhersla á þægilegar stafrænar lausnir og virðisaukandi þjónustu í útibúum bankans.