Umhverfis- og loftslagsmál

Umhverfis- og loftslagsmál eru ofarlega á baugi hjá okkur í Arion banka. Við viljum tryggja heildstætt yfirlit yfir þau umhverfisáhrif sem hljótast af daglegri starfsemi okkar og lágmarka neikvæð áhrif. Við gerum okkur grein fyrir að mestu áhrifin sem bankar geta haft í tengslum við umhverfis- og loftslagsmál eru í gegnum lánveitingar og fjárfestingar og þá ábyrgð tökum við alvarlega.

Arion banki gerðist aðili að Loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar árið 2015 og var áhersla okkar fyrst um sinn á að auka vitund og þekkingu starfsfólks á umhverfis- og loftslagsmálum og að draga úr losun í okkar rekstri. Við erum stolt af grænu vegferðinni okkar og sjást áherslur okkar á umhverfis- og loftslagsmál í sífellt meiri mæli í þjónustu- og vöruframboði bankans. Stýring fjármuna í átt að grænni uppbyggingu og hringrásarhagkerfi er afar þýðingarmikil í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og ætlum við áfram að feta þá braut.

Sjá nánari umfjöllun um græn fjármál og ábyrga bankastarfsemi.

Umhverfis- og loftslagsstefna Arion banka

Við viljum vera til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif starfseminnar og losun gróðurhúsalofttegunda. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ein stærsta áskorun samtímans og nauðsynlegt að halda hlýnun jarðar innan 1,5 gráða. Við ætlum að leggja okkar af mörkum svo Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu og öðrum innlendum og alþjóðlegum umhverfis- og loftslagssáttmálum og náð metnaðarfullu markmiði um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.

Bankar gegna lykilhlutverki í því að fjármagna framfarir og við beinum sjónum okkar að fjármögnun verkefna sem snúa að sjálfbærri þróun og grænni innviðauppbyggingu.

Við gerum þá kröfu til okkar birgja að þeir taki mið af umhverfis- og loftslagsáhrifum í sinni starfsemi. Þegar við veljum á milli sambærilegra tilboða frá birgjum munu loftslags- og umhverfissjónarmið ráða ákvörðun okkar. Markmið bankans er að draga úr losun kolefnis og annarra gróðurhúsalofttegunda sem hlýst af eigin starfsemi um a.m.k. 55% fyrir árið 2030 frá viðmiðunarárinu 2015 og kolefnisjafna alla þá losun sem eftir stendur.

Við setjum okkur markmið og birtum árangur hvað varðar þá þætti sem við höfum mest áhrif á, svo sem innkaup, eigin rekstur og þjónustu við viðskiptavini. Með markvissum hætti munum við auka þekkingu starfsfólks á umhverfismálum og styðja við vegferð viðskiptavina okkar í átt að grænni framtíð í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Markmið í tengslum við umhverfis- og loftslagsstefnu bankans

Á árinu 2022 munum við setja okkur markmið um hlutfall grænna lánveitinga af heildarlánasafni til ársins 2030.

Staða: Lokið – markmiðið verður endurskoðað árlega.

Hlutfall grænna lánveitinga sem falla undir græna fjármálaumgjörð Arion banka er nú 12,5% af heildarlánasafni bankans, sem nam í árslok um 1.085 milljörðum króna. Er það markmið bankans að koma því hlutfalli í að minnsta kosti 20% árið 2030. Með þessu markmiði hefur bankinn í hyggju að auka grænar lánveitingar á þann hátt að árlegur vöxtur grænnar lánabókar sé að jafnaði helmingi meiri en vöxtur lánabókar bankans í heild sinni. Markmið varðandi hlutfall grænna lánveitinga verður endurskoðað árlega með tilliti til þeirra tækifæra sem gefast á næstu árum til grænnar fjármögnunar og innleiðingar á flokkunarreglugerð Evrópusambandsins hér á landi. Er það von bankans að vöxturinn geti orðið enn hraðari en markmiðið segir til um.

Á árinu 2022 munum við setja okkur stefnu hvað varðar þær atvinnugreinar sem hafa mest áhrif í okkar lánveitingum með tilliti til loftslags- og umhverfissjónarmiða.

Staða: Lokið að hluta.

Eitt af markmiðum bankans í tengslum við sjálfbærni á árinu 2022 var að hefja þá vegferð að móta sjálfbærnistefnur mismunandi atvinnugreina. Unnið var að gerð fyrstu stefnunnar á árinu sem sneri að sjávarútvegi og í ársbyrjun 2023 var hún samþykkt af sjálfbærninefnd bankans. Við gerð stefnunnar var fengið álit frá hagsmunaaðilum og horft til áætlana og aðgerða í tengslum við umhverfis- og félagsþætti og stjórnarhætti í þessari mikilvægu undirstöðugrein íslensks efnahagslífs sem jafnframt skipar stóran sess í útlánabók bankans. Við munum móta fleiri stefnur í tengslum við þær atvinnugreinar sem hafa mest áhrif í okkar lánsafni með tilliti til loftslags- og umhverfissjónarmiða á árinu 2023.

Við spyrjum okkar helstu birgja um umhverfis- og loftslagsáhrif af þeirra starfsemi.

Staða: Lokið – stöðugt í vinnslu.

Í umhverfis- og loftslagsstefnu bankans kemur fram að við gerum þá kröfu til birgja að þeir taki mið af umhverfis- og loftslagsáhrifum í sinni starfsemi og að þegar valið stendur á milli tveggja sambærilegra tilboða munu loftslags- og umhverfissjónarmið ráða ákvörðun okkar. Innkaupareglur bankans taka mið af þessu.

Í birgjamati bankans er lögð áhersla á frammistöðu birgja varðandi umhverfis- og loftslagsmál en einnig jafnréttismál og vinnurétt. Birgjamatið er lagt fyrir birgja yfir ákveðnum stærðarmörkum. Á árinu fóru 92% nýrra birgja sem falla undir þau mörk og eru með samning við bankann í gegnum matið.

Á árinu 2022 ætlum við að hefja þá vinnu að meta kolefnisspor lánasafnsins til samræmis við aðferðafræði PCAF. Þegar við höfum náð góðri mynd af kolefnisspori lánasafnsins munum við setja okkur markmið um hvernig við getum dregið úr sporinu til ársins 2030 í samræmi við markmið Parísarsamkomulagsins.

Staða: Lokið að hluta.

Fyrsta skýrsla bankans um fjármagnaðan útblástur var gefin út á árinu. Mat á umfangi losunar gróðurhúsalofttegunda sem fjármögnuð er í gegnum lánveitingar og fjárfestingar er forsenda þess að bankinn geti sett sér markmið varðandi samdrátt í losuninni og er það næsta skref.

Frá og með árinu 2023 mun bankinn ekki kaupa inn bíla nema þeir noti 100% endurnýjanlega orkugjafa.

Staða: Ekki komið á tíma – jákvæð framvinda.

71% allra bíla í eigu bankans eru annaðhvort tengiltvinnbílar eða rafmagnsbílar, þar af eru 100% bíla sem eru í eigu bankans og notaðir í daglegum erindagjörðum starfsfólks (innkaup, fundir o.s.frv.) tengiltvinn- eða rafmagnsbílar.

Orkuskiptin ganga því nokkuð vel fyrir sig varðandi bílaflota bankans. Frá 1. janúar 2023 verða ekki keyptir inn bílar á vegum bankans nema þeir gangi 100% fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum.

Við ætlum að koma hlutfalli flokkaðs úrgangs í rekstri bankans í 90% fyrir árið 2023.

Staða: Ólokið – jákvæð framvinda.

Markmið bankans um að koma hlutfalli flokkaðs sorps í 90% fyrir árið 2023 var mjög metnaðarfullt. Mikill árangur hefur náðst í flokkun hjá bankanum en 90% flokkun náðist þó ekki á árinu 2022. Heildarhlutfall flokkaðs úrgangs var 80,1% á árinu. Bankinn er á réttri leið og stefnir áfram að því að koma hlutfalli flokkaðs sorps í 90%.

Markmið bankans er að draga úr losun kolefnis og annarra gróðurhúsalofttegunda sem hlýst af eigin starfsemi um a.m.k. 55% fyrir árið 2030 miðað við árið 2015 og kolefnisjafna alla þá losun.

Staða: Ekki komið á tíma – jákvæð framvinda.

Upphaflega var markmið bankans að draga úr losun vegna eigin starfsemi um 40% fyrir 2030, það er vegna húsnæðis og bíla (umfang 1 og 2). Í lok árs 2020 hafði bankinn þegar dregið úr losun um 34,7% og því þótti rétt að uppfæra markmiðið og stefna á að draga úr losun um 55% fyrir árið 2030. Í lok árs 2022 var losunin 55,6% minni en á viðmiðunaárinu 2015 og því verður markmiðið endurskoðað á árinu 2023. Sjá nánari upplýsingar í umfjöllun um helstu þætti í umhverfisuppgjöri bankans fyrir árið 2022 hér fyrir neðan og í umhverfisþáttum í sjálfbærniuppgjöri.

Fjármögnuð kolefnislosun vegna lána og fjárfestinga Arion banka fyrir árið 2021

Arion banki er aðili að Partnership for Carbon Accounting Financials (PCAF) sem er alþjóðlegur samstarfsvettvangur fjármálafyrirtækja sem hefur það meginmarkmið að samræma mat á umfangi losunar gróðurhúsalofttegunda sem fjármálafyrirtæki fjármagna í gegnum lánveitingar og fjárfestingar (umfang 3). Þó svo að rekstur bankans hafi áhrif á umhverfið þá liggja mestu áhrif bankans á umhverfið í lánveitingum og fjárfestingum. Þekking á kolefnisspori lánveitinga og fjárfestinga bankans er mikilvægur liður í að stýra loftslagsáhættu og markmiðasetningu í umhverfis- og loftslagsmálum.

Í lok árs 2022 birti Arion banki í fyrsta skipti ítarlega skýrslu um mat á umfangi fjármagnaðrar kolefnislosunar vegna lána og fjárfestinga fyrir árið 2021. Helstu niðurstöður eru þær að fjármögnuð losun bankans árið 2021 var 279,4 ktCO2í og var sú losun nær eingöngu frá lánasafni og þá helst frá fyrirtækjalánum eða um 95%. Ef fjármögnuð losun bankans vegna fjárfestinga og lánveitinga er borin saman við heildarlosun vegna rekstrar bankans sama ár er fjármögnuð losun 776 sinnum meiri.

Heildar kolefnislosun Arion banka 2021
ktCO2í
Fjármögnuð losun Arion banka eftir atvinnugreinum 2021
ktCO2í

Skipting lánabókar eftir atvinnugreinum 2021
%


Sá atvinnugreinaflokkur í lánasafni bankans sem losaði mest var iðnaður, orka og framleiðsla með losun upp á 117,4 ktCO2í. Sá flokkur er sjötti stærsti atvinnugreinaflokkurinn ef litið er til heildarupphæðar útlána en er með aðra hæstu losunarkræfnina eða 4,3 tCO2 í/ISKm. Landbúnaðurinn kom þar á eftir með losun upp á 78,1 ktCO2í og losunarkræfnina 7,9 ktCO2í/ISKm sem er hæsta losunarkræfnin af öllum útlánum bankans. Það þýðir að í lánabók Arion banka árið 2021 eru það útlán til landbúnaðar sem hafa hæsta gildi kolefnislosunar á móti hverri lánaðri krónu. Þeir atvinnugreinaflokkar sem eru umfangsmestir í lánasafni bankans eru sjávarútvegur með fjármagnaða losun upp á 25,1 ktCO2í og fasteignaviðskipti og byggingarstarfsemi með losun upp á 7,0 ktCO2í.

Á eftir fyrirtækjalánunum í umfangi fjármagnaðrar losunar eru bíla- og tækjalán með fjármagnaða losun upp á 10,4 ktCO2í. Vegna stefnu stjórnvalda má gera ráð fyrir að losun vegna bifreiða lækki verulega á næstu árum enda verður óheimilt að flytja inn bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti frá árinu 2030.

Áætluð losun vegna íbúðalána einstaklinga var um 1,2 ktCO2í sem er hlutfallslega mjög lítið miðað við að sá lánaflokkur er um helmingur af öllu lánasafni bankans. Það má fyrst og fremst þakka okkar endurnýjanlegu orkugjöfum, það er jarðhitanum og vatnsaflinu.

Fjármögnuð losun eignasafns Arion banka samstæðunnar var um 2,5 ktCO2í. Flestar fjárfestingar í eignasafni samstæðunnar teljast ekki til mengandi iðnaðar. Stærsti hluti losunarinnar í þessum flokki kemur frá félögum sem stunda farþegaflutninga til og frá landinu með flugi. Aðrar atvinnugreinar sem eiga stóran þátt í þessari losun eru sjávarútvegur og skipaflutningar.

Skýrsluna og ítarlega útskýringu á aðferðafræðinni má nálgast hér

Helstu þættir umhverfisuppgjörs á rekstri Arion banka á árinu 2022

Frá árinu 2016 hefur Arion banki gert grein fyrir stöðu og aðgerðum í umhverfis- og loftslagsmálum. Viðmiðunarár umhverfisuppgjörs bankans er árið 2015 og er markmið okkar að draga úr losun í eigin rekstri um að minnsta kosti 55% fyrir árið 2030. Hér fyrir neðan má sjá helstu niðurstöður úr umhverfisuppgjöri ársins 2022 vegna reksturs bankans. Ítarlegar niðurstöður uppgjörsins má finna í sjálfbærniuppgjöri bankans undir umhverfisþáttum.

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna eigin reksturs, þ.e. vegna bifreiða og húsnæðis, hefur dregist saman um 55,6% frá árinu 2015 (umfang 1 og 2). Þar af hefur heildarlosun vegna bifreiða dregist saman um 66,5% og vegna húsnæðis um 45,7%. Sem fyrr er helsta tækifærið í rekstri bankans til að draga enn frekar úr losun að hætta alfarið kaupum á eldsneyti fyrir bíla. Bankinn hefur tekið þá ákvörðun að frá og með árinu 2023 mun bankinn ekki kaupa bíla nema þeir noti 100% endurnýjanlega orkugjafa.

Fermetrum undir starfsemi bankans hefur verið fækkað verulega á undanförnum árum í takt við aukna áherslu á stafræna þjónustu. Við það hefur losun vegna eigin húsnæðis í umfangi 2 minnkað töluvert. Þess má þó geta að hluti af losuninni frá eigin húsnæði hefur flust frá umfangi 2 yfir í umfang 3 þar sem bankinn hefur í sumum tilfellum selt frá sér húsnæði en leigt það aftur.

Í ár hefur losun dótturfélaganna Varðar og Stefnis, sem deila húsnæði með bankanum, verið tekið með inn í útreikninga í umhverfisuppgjöri bankans og losun dótturfélaganna verið dregin frá umfangi 2 og færð yfir í umfang 3. Hlutfall sorps í starfsemi félaganna var einnig reiknað út miðað við starfsmannafjölda.

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna bifreiða (umfang 1)
tCO2í
Losun gróðurhúsalofttegunda vegna húsnæðis* (umfang 2)
tCO2í
*Upplýsingar um losun í umfangi 2 eru birtar með fyrirvara um að álestra gæti vantað á mæla vegna rafmagns og hitaveituvatns í lok árs 2022 og notkun að einhverju leyti áætluð. Gögn uppfærast með sjálfvirkum hætti í kerfi Klappa og verða birt með leiðréttingum í næsta umhverfisuppgjöri. Leiðréttingar hafa verið gerðar fyrir árið 2021 og aftur í tímann þegar við á.
Heildarlosun vegna bifreiða og húsnæðis með markmiðum til ársins 2031 (án mótvægisaðgerða)
tCO2í

Arion banki fer í mótvægisaðgerðir vegna þeirrar losunar sem ekki tekst að koma í veg fyrir. Í lok árs 2022 var ákveðið að kaupa í fyrsta sinn vottaðar kolefniseiningar af fyrirtækinu Aspiration fyrir tilstilli Seven Glaciers á Íslandi. Keyptar voru kolefniseiningar sem samsvara 600 tCO2í til mótvægis við þá losun sem var á beinni ábyrgð bankans (umfang 1 og 2) á árinu. Einnig voru keyptar kolefniseiningar vegna annarra þátta í tengslum við starfsemina (umfang 3) svo sem vegna viðskiptaferða, úrgangs og samgangna starfsfólks til og frá vinnu.

Arion banki og íslenska sprotafyrirtækið SoGreen gerðu í lok árs 2022 samstarfssamning í tengslum við kaup á óvirkum kolefniseiningum sem verða til við að tryggja menntun stúlkna í Sambíu. Er bankinn þar með í hópi fjölbreyttra fyrirtækja, sjóða, félaga og stofnana sem mynda brautryðjendahóp og gera verkefni SoGreen í Sambíu að veruleika.

Bankinn hefur auk þess styrkt Skógræktarfélag Íslands myndarlega til fjölda ára og heldur þeim stuðningi áfram.

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna aðkeyptrar þjónustu (umfang 3 án mótvægisaðgerða)
tCO2í

 

Með aukinni gagnaöflun höfum við betri upplýsingar um aðkeypta þjónustu (umfang 3). Á árunum 2015-2018 bættist m.a. millilandaflug, flugferðir verktaka, flug með erlendum flugfélögum, leigubílaferðir og gagnaeyðing við umhverfisuppgjör bankans sem skýrir að hluta til af hverju skráð heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna aðkeyptrar þjónustu hækkaði á tímabilinu.

Á árinu 2020 bættust við samgöngur starfsfólks til og frá vinnu. Eins og fyrr segir þá bættist losun vegna leigðra og útleigðra eigna við umfang 3 árið 2022. Undir leigðar eignir í umfangi 3 er losun vegna starfsstöðva og húsnæðis sem bankinn leigir fyrir sína starfsemi og þar undir fellur líka losun sem á sér stað vegna hraðbanka sem bankinn leigir af þjónustuaðila. Bankinn birtir í fyrsta sinn upplýsingar um hluta losunar vegna aðkeypts búnaðar, þ.e. tölva og tölvubúnaðar. 

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna flugferða (hluti af umfangi 3)
tCO2í

 

Á árinu 2021 bættust við upplýsingar um flug úr bókhaldskerfi bankans auk gagnastreymis í gegnum kerfi Klappa. Eftir að flugferðum hafði fækkað verulega á árunum 2020 og 2021, aðallega vegna heimsfaraldurs Covid-19, hefur viðskiptaferðum fjölgað aftur á árinu 2022 og því eykst losunin töluvert í þessum lið miðað við fyrri ár.


Markmið bankans í tengslum við flokkun sorps var mjög metnaðarfullt; að koma hlutfalli flokkaðs sorps í 90% fyrir árið 2023. Mikill árangur hefur náðst í flokkun hjá bankanum en við náðum þó ekki 90% markmiðinu á árinu eins og við stefndum að. Heildarhlutfall flokkaðs úrgangs fór upp í 80,1% á árinu 2022 en lítið var um framkvæmdaúrgang á árinu miðað við árin 2020-2021. 

Bankinn er á réttri leið og stefnir áfram á 90% flokkunarhlutfall í sinni starfsemi.

Flokkað sorp
%

Samgöngur starfsfólks

Arion banki er með fjarvinnustefnu fyrir starfsfólk. Stefnan kveður á um aukinn sveigjanleika varðandi viðveru á starfsstöðvum og fjölbreyttara starfsumhverfi í takt við breytta tíma. Aukin fjarvinna sparar tíma og dregur úr kolefnisspori vegna ferða starfsfólks til og frá vinnu. Markviss nýting fjarvinnu er þannig til hagsbóta fyrir starfsfólk, fyrirtækið og samfélagið í heild.

Á árinu 2021 bauðst starfsfólki í fyrsta sinn að ferðast með umhverfisvænni máta með rafskútum en bankinn hefur samið við fyrirtækið Hopp. Starfsfólk nýtir sér rafskúturnar til að ferðast til og frá vinnu, fara á fundi eða sinna öðrum erindum á vinnutíma. Árið 2022 var fyrsta heila árið þar sem starfsfólki bauðst að nýta sér þessa þjónustu en í árslok var heildarfjöldi ferða með Hopp 6.829 talsins. Ánægjulegt er að sjá hversu góðar viðtökur þessi umhverfisvæni ferðamáti hefur fengið.

Til að styðja við og mæta aukinni notkun starfsfólks og viðskiptavina á rafmagns- og tengiltvinnbílum var rafhleðslustöðvum fjölgað úr 16 í 54 í og við höfuðstöðvar bankans á árinu.

Í byrjun árs 2023 var gerð könnun meðal starfsfólks varðandi ferðavenjur til og frá vinnu þá daga sem starfsfólk mætti á starfsstöðvar. Klappir grænar lausnir sá um könnunina og úrvinnslu hennar. Hér fyrir neðan má sjá helstu niðurstöður en samanburður á milli áranna 2020, 2021 og 2022 er birtur með þeim fyrirvara að annar aðili framkvæmdi fyrstu könnunina fyrir bankann árið 2020. Munurinn á milli ára getur því að hluta til verið vegna ólíkrar aðferðafræði. Niðurstöðurnar sýna að meðallosun á hvern starfsmann vegna samgangna á árinu 2022 var 288 kgCO2í sem er 4,4% meira en árið áður.

84,7% starfsfólks nota fyrst og fremst einkabílinn til að komast til og frá vinnu; 9,8% hjóla eða ganga og 5,6% nota almenningssamgöngur. Meirihluti þeirra sem nota einkabílinn að staðaldri til og frá vinnu ekur á bílum sem knúnir eru áfram af jarðefnaeldsneyti, eða 54,4% og 25,0% er á tvinnbílum/tengiltvinnbílum. Örfáir starfsmenn keyra metanbíla eða 0,6% og vaxandi hluti eða 19,7% starfsfólks mæta til vinnu á rafmagnsbílum.

Heildarlosun vegna samgangna starfsfólks til og frá vinnu er 220,9tCO2í árið 2022 sem er 18% aukning frá því 2021 og fellur sú losun undir umfang 3 í umhverfisuppgjöri bankans. Þrátt fyrir fjarvinnustefnu mætti starfsfólk oftar á starfsstöðvar á árinu 2022 en á árunum 2020 og 2021 auk þess sem starfsfólki hefur fjölgað á milli ára.

Ferðamáti starfsfólks
%
Bílar starfsfólks - aflgjafar
%

Lykiltölur

 

94%

Samdráttur á heildarmagni
prentaðs pappírs

66,5%

samdráttur á losun gróðurhúsalofttegunda vegna  bifreiða í rekstri

220,9 tCO2tí

heildarlosun vegna
ferðamáta starfsfólks

45,7%

samdráttur á losun gróðurhúsalofttegunda vegna húsnæðis

600 

vottaðar kolefniseiningar
keyptar fyrir losun ársins 2022

288 kgCOí

meðallosun starfsfólks vegna samgangna
til og frá vinnu

Gögn og upplýsingar í uppgjörinu gilda fyrir árið 2022 og tengjast meginstarfsemi Arion banka. Gögn sem tengjast dótturfélögum bankans þar sem þau deila húsnæði með bankanum hafa verið færð undir losun vegna útleigðra eigna (umfang 3). Gögn frá árunum 2015-2021 eru sett fram til samanburðar en árið 2015 er viðmiðunarár bankans þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi bankans.

Í umhverfisuppgjöri bankans hefur náðst árangur í að safna saman gögnum með rafrænum gagnastraumum í gegnum kerfi Klappa grænna lausna. Í þeim tilfellum þar sem gögn um hita og rafmagn vegna starfsstöðva sem bankinn leigir eru ekki aðgengileg í gegnum kerfi Klappa eða eru illfáanleg hefur verið áætlað niður á fermetrafjölda.

Gögn eru endurreiknuð aftur í tímann fyrir tímabilið 2015 til og með 2021 samkvæmt nýjustu upplýsingum. Af þessu hlýst ákveðið misræmi ef uppgjör þetta er borið saman við fyrri umhverfisuppgjör.

Upplýsingar um útblástur vegna samgangna starfsfólks byggja á niðurstöðum könnunar sem var unnin af Klöppum grænum lausnum.

Dæmi um aðgerðir í rekstri til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda og neikvæðum umhverfisáhrifum

  • Á árinu 2022 fækkaði fermetrunum úr 17,5 þúsund í 15 þúsund.

  • 71% allra bíla í eigu bankans eru annaðhvort tengiltvinnbílar eða rafmagnsbílar, þar af eru 100% bíla sem eru í eigu bankans og notaðir eru í daglegum erindagjörðum starfsfólks (innkaup o.s.frv.) tengiltvinn- eða rafmagnsbílar.

  • Við spyrjum birgjana okkar um þeirra áherslur og frammistöðu í umhverfis- og loftslagsmálum.

  • Samgöngustyrkir hafa verið veittir starfsfólki frá árinu 2012. Með samgöngustefnu sinni leggur Arion banki sitt af mörkum til að bæta heilsu stafsfólks og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá bifreiðum. Markmið samgöngustefnu bankans er að auka nýtingu starfsfólks á vistvænum og hagkvæmum ferðamáta. Með vistvænum samgöngum er átt við allan ferðmáta til og frá vinnu annan en einkabíllinn, svo sem að ganga, hjóla, fá far með öðrum eða ferðast með almenningssamgöngum. Á árinu 2022 nýttu tæplega 10% starfsfólks sér samgöngustyrk bankans að minnsta kosti hluta úr ári.

  • Við eigum í góðu samstarfi, bæði innan- og utanlands, á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Nánari upplýsingar um UFS reitun Arion banka, skuldbindingar, vottanir og þátttöku í samstarfi á sviði sjálfbærni má nálgast hér.

Aðferðafræði við umhverfisuppgjör

Við útreikninga á umhverfisuppgjöri Arion banka er stuðst við „The Greenhouse Gas Protocol“ sem er stöðluð aðferðafræði sem innleidd hefur verið af fjölda fyrirtækja um allan heim með góðum árangri. Arion banki hefur lagt áherslu á að loftslagsverkefnið sé unnið innan ramma þeirra innlendu og alþjóðlegu laga og reglugerða sem snúa að umhverfismálum.

Á myndinni hér fyrir neðan er aðferðafræðinni lýst en samkvæmt henni er gert ráð fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) eigi sér stað í þremur þrepum. Í megindráttum myndast losun vegna flutnings á aðföngum til fyrirtækis, vegna eigin starfsemi fyrirtækis og vegna flutnings á vörum og þjónustu frá fyrirtæki. Þrepin innihalda þrjár tegundir umfangs sem skiptast í bein og óbein áhrif.