Fjárhagsleg markmið og árangur

Arion banki starfar samkvæmt skýrum fjárhagsmarkmiðum sem bankinn birtir opinberlega. Fjárhagsmarkmið bankans voru uppfærð í árslok 2022 og gilda ný markmið til næstu 3 ára. Rekstur Arion banka gekk vel á árinu og náðust flest fjárhagsleg markmið. Arðsemi bankans á árinu var 13,7% sem er umfram 13% markmið ársins.

Markmið ársins 2022

Arion banki birtir helstu fjárhagsmarkmið bankans í kauphöll og árshlutauppgjörum bankans. Hér má sjá fjárhagsmarkmið fyrir árið 2022 og þann árangur sem náðist.

  Markmið  2022
 Arðsemi eigin fjár  Umfram 13%  13,7%
 Rekstrartekjur/áhættugrunnur Umfram 7,3%  6,7%
 Iðgjaldavöxtur Iðgjaldavöxtur (m.t.t. hluta endurtryggjenda) verði 3% umfram iðgjaldavöxt á innanlandsmarkaði

 10,2%
(iðgjaldavöxtur innanlands var um 7,5% fyrstu 9 mánuði ársins)
 Lánavöxtur Í takt við nafnhagvöxt   15,9%
(Nafnhagvöxtur var um 15%)
 Kostnaðarhlutfall Lægra en 45%  47%
 Hlutfall eiginfjárþáttar 1 150-250 bps stjórnendaauki  300 bps
 Arðgreiðsluhlutfall 50%  79%
(113% arðgreiðslur + endurkaup)

Eins og sjá má náði bankinn flestum sínum rekstrarmarkmiðum á árinu 2022.

Markmið um að hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 sé á bilinu 17,3%-18,3% náðist ekki. Bankinn var í árslok með alls 4,5-13,3 milljarða króna í umfram eigið fé og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 var 18,8%. Arðgreiðslur og endurkaupaáætlun bankans eru liður í því að ná þessu markmiði. Endurkaup á hlutabréfum bankans og arðgreiðsla námu samtals 32,3 milljörðum króna á árinu 2022. Stjórn mun leggja til við aðalfund bankans sem fram fer 15. mars 2023 að greiddir verði 12,5 milljarðar króna í arð til hluthafa að teknu tilliti til eigin bréfa. Jafngildir það 8,5 krónum á hlut.

Þrátt fyrir að vaxta- og þóknanatekjur og tekjur af tryggingastarfsemi, sem bankinn hefur skilgreint sem sínar kjarnatekjur, hafi hækkað um 17,5% á árinu og kostnaður aðeins hækkað um 4%, náðist markmiðið um 45% kostnaðarhlutfall ekki. Kostnaðarhlutfall ársins var 47%. Ástæðuna er fyrst og fremst að finna í krefjandi markaðsaðstæðum sem leiddu til þess að fjármagnstekjur bankans voru neikvæðar um 3,1 milljarða króna á árinu. Neikvæðar fjármagnstekjur urðu einnig til þess að markmiðið um að hlutfall rekstrartekna/áhættuveginna eigna væri yfir 7,3% náðist ekki, hlutfallið var 6,7%.

Uppfærð markmið til næstu þriggja ára

Stjórn Arion banka samþykkti ný fjárhagsleg markmið bankans í desember 2022 í kjölfar uppfærslu á viðskiptaáætlun bankans. Uppfærða mælikvarða og markmið má sjá hér fyrir neðan.

  Markmið 2023
 Arðsemi eigin fjár  Umfram 13%
 Kjarnatekur/áhættugrunnur  Umfram 6,7%
 Iðgjaldavöxtur Iðgjaldavöxtur (m.t.t. hluta endurtryggjenda) verði 3% umfram iðgjaldavöxt á innanlandsmarkaði
 Hlutfall kostnaðar af kjarnatekjum Lægra en 48%
 Hlutfall eiginfjárþáttar 1 150-250 bps stjórnendaauki
 Arðgreiðsluhlutfall 50%

Breytingarnar snúa annars vegar að markmiðinu um lánavöxt og hins vegar að mælikvörðum sem taka mið af rekstrartekjum.

Ákveðið var að falla, a.m.k. tímabundið, frá markmiði um lánavöxt vegna óvissu í efnahagsumhverfi bankans. Ekki var talið rétt að bankinn væri bundinn af markmiði um lánavöxt í slíku árferði heldur þyrfti hann að geta brugðist við aðstæðum hverju sinni.

Þeir tveir mælikvarðar sem snúa sérstaklega að rekstrartekjum, kostnaðarhlutfall og hlutfallið rekstrartekjur/áhættuvegnar eignir, munu ekki lengur taka til fjármunatekna heldur aðeins þeirra tekna sem bankinn hefur skilgreint sem kjarnatekjur, þ.e. vaxta- og þóknanatekna og tekna af tryggingastarfsemi. Voru þessi tvö markmið endurskilgreind með hliðsjón af breyttum mælikvörðum.

Skýr markmiðasetning lykill að árangri

Fyrir utan þessi fjárhagslegu markmið eru fjölþætt markmið sem bankinn, svið hans og starfsfólk starfa eftir. Fjölmörg þeirra eru mikilvægur liður í kaupaukakerfi bankans og er þróun þeirra sýnileg starfsfólki allt árið. Sem dæmi um slíka mælikvarða má nefna þekkingu á viðskiptavinum (KYC/AML), uppitíma apps og netbanka og ánægju viðskiptavina.