Ávarp stjórnarformanns

Árið 2022 var viðburðaríkt ár. Á Íslandi og víða um heim voru samkomutakmarkanir í gildi þegar árið rann í garð. Þeim var aflétt snemma árs með tilheyrandi bjartsýni. Sú bjartsýni varði því miður ekki lengi þar sem Rússar réðust inn í Úkraínu með skelfilegum afleiðingum fyrir íbúa Úkraínu. Efnahagsleg áhrif stríðsins finnast víða, ekki síst í Evrópu en einnig á eignamörkuðum víða um heim. Áhrifin á Ísland, með sína sjálfbæru og grænu orku, eru enn sem komið er takmörkuð. Efnahagslíf landsins var þróttmikið á árinu 2022 þótt aðstæður á mörkuðum hafi vissulega verið krefjandi. Fjárhagsstaða bankans er sem fyrr mjög sterk, 24,0% eiginfjárhlutfall og 11,8% vogunarhlutfall í árslok. Eigið fé bankans nam 188 milljörðum króna í árslok og námu endurkaup og arðgreiðslur til hluthafa 32,3 milljörðum króna á árinu. Hlutfall eiginfjárþáttar 1 var 18,8% í árslok, en markmið bankans er að það sé á bilinu 17,3-18,3%. Fjárhagslegur styrkur bankans er því áfram góður og bankinn vel í stakk búinn til að takast á við það sem fram undan er.

Stjórnarformaður Arion banka

Brynjólfur Bjarnason

Stöðugleiki við krefjandi aðstæður

Þrátt fyrir efnahagslegan óstöðugleika í löndunum í kringum okkur, verðbólgu og hækkandi vexti var hagvöxtur á Íslandi á bilinu 6-7% á árinu 2022, sem er með því hæsta í Evrópu. Spáin fyrir árið 2023 gerir ráð fyrir áframhaldandi hagvexti hér á landi. Vissulega hefur verðbólga verið há en miðað við samræmda vísitölu neysluverðs var hún engu að síður með því lægsta í Evrópu á árinu 2022.

Mikil umsvif voru í efnahagslífinu og tók ferðaþjónustan sérstaklega vel við sér með endurkomu erlendra ferðamanna. Útflutningsgreinar okkar standa vel og sjávarútvegur er öflugur. Fjórða stoðin í okkar útflutningi, þekkingargreinarnar, vex af miklum krafti en þar skapa fyrirtæki yfir 15% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Starfsemi bankans á árinu fór ekki varhluta af styrk efnahagslífsins og óx lánabók bankans um 16% á árinu og var góð eftirspurn meðal fyrirtækja og heimila eftir okkar þjónustu.

Engin aðkallandi endurfjármögnunarþörf á árinu 2023

Fjármálamarkaðir eru viðkvæmir fyrir óvissu sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur stríðsátaka. Óstöðugleiki var því á verðbréfamörkuðum og lánsfjármörkuðum í Evrópu og víða um heim. Til að mynda töpuðu hefðbundin eignasöfn skráðra bandarískra hluta- og skuldabréfa í helmingshlutföllum meiri verðmætum en nokkru sinni frá kreppunni 1932. Kjör sem fjármálafyrirtækjum bjóðast á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum versnuðu á árinu en Arion banki hefur búið vel í haginn og er í þeirri eftirsóknarverðu stöðu að hafa enga aðkallandi endurfjármögnunarþörf á árinu 2023.

Þrátt fyrir styrk íslensks efnahagslífs, sjálfbærni á sviði orkumála og fjarlægð frá átakasvæðum einkenndust verðbréfamarkaðir hér á landi af sveiflum og verðlækkunum. Hlutabréf Arion banka voru þar engin undantekning og lækkuðu um 21,3% í kauphöll Nasdaq Iceland á árinu 2022, að teknu tilliti til arðgreiðslu, eftir að hafa hækkað um 101% á árinu 2021.

Breitt þjónustuframboð styrkur

Við tókum afgerandi skref á árinu í að efla Arion samstæðuna og skerpa áherslur. Salan á dótturfélaginu Valitor fór í gegn um mitt ár sem einfaldar Arion samstæðuna. Snemma árs flutti starfsemi Varðar í höfuðstöðvar Arion banka í Borgartúni 19. Þar eru nú saman komin öll þrjú kjarnafélög Arion samstæðunnar; Arion banki, Vörður og Stefnir. Samstarf félaganna er meira en áður og vinnur starfsfólk þéttar saman. Ýmsir þættir í starfsemi Varðar hafa verið samþættir starfsemi Arion banka með það að markmiði að auka samlegð og skilvirkni.

Styrkur samstæðunnar liggur ekki síst í öflugum hópi starfsfólks sem þjónar stórum hópi viðskiptavina. Markmið okkar er að nýta styrkleika hvers félags um sig og sameiginlegan slagkraft, viðskiptavinum okkar til góða. Þar á ég við fjölbreytt þjónustuframboð, viðamikla reynslu og þekkingu starfsfólks og öflugar sölu- og þjónustuleiðir. Arion samstæðan býður fjölbreyttari fjármálaþjónustu en aðrir markaðsaðilar og í því felst styrkleiki.

Spennandi samstarfsaðilar á sviði fjártækni

Arion samstæðan á einnig í spennandi samstarfi við ung fjártæknifélög. Við höfum fjárfest í tveimur félögum sem starfa á mörkuðum sem hingað til hafa einkennst af óskilvirkni og bjóða því upp á mikil tækifæri til markaðssóknar. Annars vegar er um að ræða Leiguskjól, sem býður leigusölum og leigutökum heildstæða þjónustu, m.a. bankaábyrgð frá Arion banka. Hins vegar Frágang, en markmið þess félags er að bjóða þeim sem sjá sjálf um sín bílaviðskipti lausnir sem halda utan um allt ferlið, þar með talið fjármögnun. Bæði þessi félög hafa það skýra markmið að auka skilvirkni þeirra markaða sem þau starfa á með stafrænum lausnum og auka enn frekar hlut stafrænnar fjármálaþjónustu.

Horft til norðurslóða

Við höfum hug á að auka landfræðilega fjölbreytni í okkar starfsemi og horfum í því skyni til norðurslóða. Í dag eru tæp 9% lána bankans til fyrirtækja á norðurslóðum. Sem efnahagssvæði hafa norðurslóðir heilmikið fram að færa næstu áratugi, ekki síst Grænland þar sem mikil gerjun er í tengslum við námuvinnslu, innviðauppbyggingu og ferðaþjónustu. Ísland á margt sameiginlegt með öðrum þjóðum á svæðinu sem er strjálbýlt, með svipað veðurfar, byggir á fiskveiðum og hefur næga græna orku. Þrátt fyrir að Ísland sé lítil þjóð þá erum við með þróað fjármálakerfi og góðar tengingar við erlenda fjármálamarkaði. Við erum því í kjörstöðu til að veita fjármálaþjónustu og styðja við þá uppbyggingu sem fram undan er á norðurslóðum með hag samfélags og umhverfis í huga.

Viljum hafa jákvæð áhrif á samfélag og umhverfi

Í öllu sem við gerum leggjum við okkur fram um að starfa með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Markmið okkar er ætíð að vera traustur samstarfsaðili og hafa jákvæð áhrif á það samfélag sem við störfum í og umhverfi okkar og loftslag. Það er mikilvægt að gefa ekki eftir í baráttunni gegn loftagsbreytingum þrátt fyrir ýmsar aðrar áskoranir nú um mundir.

Bankinn hefur skýra stefnu á sviði umhverfis- og loftlagsmála og gaf á árinu 2021 út sína fyrstu grænu fjármálaumgjörð. Síðan þá hefur bankinn fjórum sinnum gefið út græn skuldabréf í evrum og íslenskum krónum. Bankinn býður viðskiptvinum sínum upp á græna sparnaðarleið, græn fyrirtækjalán og græn íbúðalán og bílalán. Hlutfall grænna lána í okkar lánabók út frá skilgreiningu grænu fjármálaumgjarðarinnar er 12,5% og markmið okkar er að þetta hlutfall verði 20% á árinu 2030. Þrátt fyrir mörg spennandi verkefni hér á landi væri óskandi, og í raun nauðsynlegt, að það væru fleiri stór sjálfbærniverkefni á döfinni hjá íslenskum fyrirtækjum – verkefni sem hefðu jákvæð áhrif á umhverfi okkar og loftslag.

Aukin ófjárhagsleg upplýsingagjöf

Sjálfbærni er með formlegum hætti hluti af stjórnskipulagi bankans og fellur undir ábyrgðarsvið stjórnar og bankastjóra. Er þetta til marks um þá áherslu sem bankinn leggur á umhverfis- og félagsþætti og stjórnarhætti (UFS).

Arion banki birtir í Árs- og sjálfbærniskýrslu fyrir árið 2022 ítarlegar ófjárhagslegar upplýsingar í takti við lög og reglur, leiðbeinandi tilmæli Nasdaq og Global Reporting Initiative (GRI). Einnig er horft til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og 10 grundvallarviðmiða Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Í þriðja sinn birtum við upplýsingar um stöðu bankans vegna aðildar okkar að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi, Principles for Responsible Banking (PRB). Einnig birtum við mat á loftslagsáhættu bankans út frá Task Force on Climate-related Financial Disclosure (TCFD) sem er í þriðja sinn hluti af áhættuskýrslu bankans, Pillar 3.

Undir lok árs 2022 birti Arion banki í fyrsta sinn niðurstöður útreikninga á fjármagnaðri kolefnislosun vegna lána og fjárfestinga samkvæmt aðferðafræði PCAF, Partnership for Carbon Accounting Financials. Útreikningarnir ná yfir árið 2021. Áhrifa- og úthlutunarskýrsla fyrir græna fjármálaumgjörð bankans fyrir árið 2021 kom einnig út á árinu. Í þeirri skýrslu má sjá úthlutun fjármuna sem aflað hefur verið með grænum skuldabréfaútgáfum og grænum innlánum árið 2021 ásamt umfjöllun um jákvæð umhverfis- og loftslagsáhrif grænna verkefna Arion banka. Á árinu 2023 munum við gefa út áhrifa- og úthlutunarskýrslu fyrir árið 2022.

Deloitte hefur veitt álit með takmarkaðri vissu á ófjárhagslegri upplýsingagjöf Arion banka 2022 sem er sett fram samkvæmt Global Reporting Initiative (GRI) og UFS leiðbeiningum Nasdaq. Einnig veitir Deloitte álit á upplýsingum um stöðu bankans vegna aðildar að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi, Principles for Responsible Banking.

Ríkið dragi úr umsvifum á fjármálamarkaði

Í gegnum eignarhald sitt á tveimur af þremur stóru bönkunum hér á landi er íslenska ríkið enn umsvifamesti aðilinn á íslenskum fjármálamarkaði. Það gefur augaleið að það er ekki ákjósanlegt að Arion banki sé eini bankinn af þessum þremur sem er alfarið í einkaeigu. Vissulega hafa verið tekin skref á síðustu árum til að draga úr eignarhaldi ríkisins en betur má ef duga skal. Hnökrar á framkvæmd sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka á árinu 2022 eiga ekki að verða til þess að horfið verði af þeirri braut að draga úr umsvifum ríkisins eða hægja á þeirri vegferð. Það þarf einfaldlega að læra af reynslunni og horfa til næstu skrefa. Aðalatriðið er að losa um eignarhald ríkisins og auka með því tiltrú erlendra fjárfesta.

Jafnframt er mikilvægt að stjórnvöld fjarlægi þær hindranir sem enn eru til staðar á gjaldeyrismarkaði og stuðli þannig að heilbrigðum og virkum gjaldeyrismarkaði til hagsbóta fyrir alla.

Sameiginlegir hagsmunir bankans og starfsfólks

Við viljum vera öðrum góð fyrirmynd þegar kemur að ábyrgum rekstri þar sem horft er til langs tíma. Forsenda þess er að rekstur bankans standi traustum fótum og skili hluthöfum og samfélaginu arði. Að því vinnum við alla daga og höfum náð ágætum árangri eins og 13,7% arðsemi bankans á árinu ber með sér.

Á árinu stóð öllu starfsfólki bankans, að eftirlitseiningum undanskildum, til boða að taka þátt í kaupréttar- og kaupaukakerfi bankans. Þátttaka starfsfólks er mikilvægur þáttur í að tvinna saman hagsmuni þess og bankans. Kaupaukakerfi bankans hefur vel skilgreind markmið sem snúa að öllum helstu sviðum starfseminnar og á sinn þátt í góðu gengi bankans á undanförnum árum.

Eiginfjárstaða bankans er áfram með því sterkasta sem gerist í Evrópu og það þrátt fyrir að á síðustu tveimur árum hafi arðgreiðslur og endurkaup numið um 64 milljörðum króna. Í þessum efnum verður áfram horft til arðgreiðslustefnu bankans og markmiðs um hlutfall eiginfjárþáttar 1.

Vitum hvert við stefnum

Eins og áður hefur komið fram stendur Arion banki traustum fótum, við erum með skýra sýn og stefnu og metnaðarfull markmið fyrir komandi ár. Við störfum á markaði þar sem efnahagslífið er þróttmikið þrátt fyrir margvíslegar áskoranir í umhverfinu. Við vitum hvernig við viljum þróa okkar þjónustu þannig að hún þjóni okkar viðskiptavinum sem best og höldum ótrauð áfram á þeirri braut sem við höfum markað.

En það er ekki nóg að bankinn vinni að aukinni skilvirkni og sterkum rekstri ef stjórnvöld skapa hamlandi starfsumhverfi. Stjórnvöld þurfa að draga frekar úr eignarhaldi sínu á fjármálafyrirtækjum og auka þannig tiltrú erlendra fjárfesta. Þau þurfa einnig að jafna samkeppnisstöðu innlendra banka gagnvart erlendum bönkum sem sækjast eftir viðskiptum íslenskra fyrirtækja, bönkum sem búa við lægri skatta, lægri kröfur um eigið fé og minna íþyngjandi fjármálaeftirlit. Við fögnum allri samkeppni en það þarf að jafna leikinn.

Ég þakka starfsfólki og stjórn Arion banka fyrir samstarfið og vel unnin störf á árinu 2022.