Fyrirtækja­þjónusta

Arion banki veitir fyrirtækjum alhliða fjármálaþjónustu. Árið var viðburðaríkt þar sem áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru fjöruðu út en við tóku umfangsmiklar vaxtahækkanir og stríð í Evrópu með víðtækum áhrifum á rekstur og rekstrarumhverfi fyrirtækja, erlendis jafnt sem hér heima. Þjónusta bankans var umfangsmikil, hvort sem litið er til lánahliðar, fyrirtækjatrygginga eða fyrirtækjaráðgjafar.

Umsvifamikið ár að baki

Innlendur hlutabréfamarkaður hélt áfram að vaxa og dafna og voru fjórar skráningar á árinu. Að þremur þeirra hafði Arion banki aðkomu, ýmist sem leiðandi aðili eða í samstarfi við aðrar fjármálastofnanir, innlendar jafnt sem erlendar. Að auki veitti bankinn ráðgjöf og hafði aðkomu að margvíslegum öðrum verkefnum, sem meðal annars styðja við stefnu bankans á norðurslóðasvæðinu.

Eftir nokkurra ára skeið þar sem útlánavöxtur til fyrirtækja í efnahagslífinu var takmarkaður var 2022 ár umsvifa og útlánavaxtar. Arion banki veitti sem fyrr stórum og smáum fyrirtækjum hérlendis alhliða fjármálaþjónustu, hvort sem litið er til framkvæmdafjármögnunar til að mæta íbúðaþörf í landinu eða þjónustu við lítil og meðalstór fyrirtæki í sínum daglega rekstri. Þá hélt vegferð bankans innan norðurslóðasvæðisins áfram, en lán á því svæði jukust um ríflega 60% á árinu og er dreifing þeirrar lánabókar nú farin að endurspegla í æ ríkari mæli stefnu bankans á svæðinu.

Samstarf Arion banka og Varðar þegar kemur að tryggingum jókst á árinu og er nú lögð áhersla á að kynna tryggingar Varðar fyrir fyrirtækjum í viðskiptum við Arion banka. Þannig geta viðskiptavinir félaganna nálgast tryggingar Varðar bæði í gegnum þjónustuleiðir Arion banka og Varðar. Þetta er mikilvægur hluti af þeirri sýn bankans að bjóða upp á heildarþjónustu í fjármálum með það að markmiði að bæta upplifun viðskiptavina og einfalda þeim alla fjármálaumsýslu.

Sjálfbærni og umhverfismál

Arion banki hefur markað sér skýra stefnu þegar kemur að samfélagsábyrgð og umhverfis- og loftslagsmálum. „Saman látum við góða hluti gerast“ er yfirskrift stefnu bankans um samfélagsábyrgð sem kristallast í að starfa með ábyrgum hætti í sátt við samfélag og umhverfi.

Stefna bankans endurspeglast í útlánum bankans. Lánveitingar bankans til orkuiðnaðar eru á sviði endurnýjanlegrar orku og lán bankans til sjávarútvegs miða að sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar. Þar sem Ísland er í þeirri einstöku stöðu að nota nær eingöngu endurnýjanlega orkugjafa vegna húshitunar og rafmagns á það einnig við um þau fasteignaverkefni sem bankinn fjármagnar.

Í lok árs námu samþykktar grænar lánveitingar til fyrirtækja um 82 milljörðum króna og skiptast í eftirfarandi flokka: Orkusparnaður, sjálfbærar veiðar og fiskeldi, og mengunarvarnir og stýring.

Grænar lánveitingar til fyrirtækja
%

 

Stærsta einstaka græna lánveiting bankans er til verkefnis á vegum Norðuráls. Kolefnisspor áls frá Norðuráli er með því lægsta sem gerist í heiminum og í lok árs hlaut félagið verðlaun sem Umhverfisfyrirtæki ársins.

Ýmsar grænar lánavörur bjóðast fyrirtækjum í þjónustuframboði bankans og í fyrsta sinn var gerð úttekt á fjármagnaðri kolefnislosun Arion banka samkvæmt aðferðafræði PCAF.

Virk þátttaka Arion banka í uppbyggingu efnahagslífsins styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 7 um sjálfbæra orku, markmið 8 um góða atvinnu og hagvöxt og markmið 9 um nýsköpun og uppbyggingu.

    

Lán Arion banka til fyrirtækja

Útlán Arion banka til fyrirtækja voru um 502 milljarðar króna eða sem nemur 46% af heildarútlánum bankans til viðskiptavina.

Skipting lánabókar eftir atvinnugreinum
%