Helstu atburðir
Árið 2022 var viðburðaríkt og gekk starfsemi bankans vel. Íslenskt efnahagslíf dafnaði á árinu og hagvöxtur var með því hæsta í Evrópu. Félögin sem mynda Arion banka samstæðuna efldu samstarf sitt enn frekar á árinu með það að markmiði að veita viðskiptavinum betri þjónustu.
Aukið samstarf Arion banka og Varðar
Starfsfólk Varðar flutti í upphafi árs í höfuðstöðvar Arion banka. Hluti starfsfólks félagsins gekk til liðs við bankann og sinnir margvíslegri stoðþjónustu sem er samnýtt á milli Arion banka, Varðar og Stefnis. Markmiðið með flutningnum er að auka skilvirkni með samnýtingu húsnæðis og auknu samstarfi, t.a.m. á sviði mannauðsmála og upplýsingatækni, og að nýta sameiginlegan slagkraft félaganna þegar kemur að þjónustu við viðskiptavini, sölumálum og markaðssókn.
Hæsta hlutdeild markaðsaðila
Á árinu 2022 var Arion banki með hæstu hlutdeild allra markaðsaðila í miðlun hlutabréfa og skuldabréfa í kauphöll Nasdaq Iceland. Á hlutabréfamarkaði var velta bankans 445 milljarðar króna sem samsvarar 21,5% hlutdeild og er það sjöunda árið í röð sem Arion banki er með mestu hlutabréfaveltu allra markaðsaðila í kauphöll Nasdaq Iceland. Á skuldabréfamarkaði var velta bankans 518 milljarðar króna og hlutdeildin 19,8%, sem var jafnframt mesta skuldabréfavelta allra markaðsaðila á Nasdaq Iceland. Arion banki var einnig með hæstu hlutdeild markaðsaðila á First North markaðinum eða 35,4%.
Samstarf með spennandi fyrirtækjum
Arion banki vann á árinu með fjölmörgum fyrirtækjum og studdi við þau á þeirra vegferð. Meðal annars vann bankinn að skráningu Nova á markað, kaupum á 50% hlut í Annata, yfirtöku og fyrirhugaðri afskráningu Origo og hlutafjáraukningu og kauphallarskráningu Amaroq Minerals og Alvotech. Þannig kom bankinn að þremur af fjórum kauphallarskráningum íslenskra fyrirtækja á árinu.
Vöxtur í útlánum
Eftirspurn eftir lánum var umtalsverð á árinu þrátt fyrir hækkandi vaxtastig. Lán til viðskiptavina jukust um 16% og hækkaði lánabók bankans til fyrirtækja um 23%. Námu lán til viðskiptavina í árslok 1.085 milljörðum króna.
Arion banki lánaði um 150 milljarða króna í íbúðalán á árinu og er þar bæði um að ræða endurfjármögnun og ný lán. Íbúðalánasafn bankans óx um 12 milljarða króna á árinu og nam um 514 milljörðum í árslok.
Vinsældir bílalána Arion banka halda áfram að aukast. Á árinu urðu þinglýsingar bílalána rafrænar sem þýðir að ferlið frá umsókn til útborgunar er orðið nær 100% rafrænt. Bílalánasafn bankans hækkaði um 3 milljarða króna á árinu og var góður vöxtur í grænum bílalánum. Nam lánasafnið í árslok um 17 milljörðum króna.
Besta bankaappið sjötta árið í röð
Arion banka appið var sjötta árið í röð valið besta bankaappið á Íslandi af viðskiptavinum bankanna samkvæmt könnun MMR. Á undanförnum árum hefur bankinn kynnt til leiks fjölda nýjunga og var árið 2022 þar engin undantekning. Markmiðið er einfaldlega að gera bankaviðskipti og fjármál eins einföld og þægileg og frekast er unnt. Í appinu geta viðskiptavinir sinnt sínum fjármálum, átt viðskipti með hlutabréf og sjóði, keypt tryggingar og fengið yfirsýn yfir sín lífeyrismál.Jákvætt lánshæfismat frá Moody‘s
Arion banki fékk um mitt ár lánshæfismat frá Moody´s. Var þetta í fyrsta sinn sem bankinn fær slíkt mat frá Moody‘s, en áður var bankinn aðeins með lánshæfismat frá Standard & Poor‘s. Sem útgefandi fékk bankinn langtímaeinkunnina Baa1 og fyrir innlán fékk bankinn langtímaeinkunnina A3. Í báðum tilfellum eru horfur jákvæðar.
Nýr aðstoðarbankastjóri, breytingar
á framkvæmdastjórn og nýir forstjórar dótturfélaga
Í aprílmánuði tók Iða Brá Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs, jafnframt við starfi aðstoðarbankastjóra. Á sama tíma tók Hákon Hrafn Gröndal sem gegnt hafði starfi lánastjóra á fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviði við starfi framkvæmdastjóra sviðsins. Þá tók Jóhann Möller við starfi framkvæmdastjóra markaða. Jóhann gegndi áður starfi forstjóra Stefnis og tók Jón Finnbogason, sem gegnt hafði starfi útlánastjóra og forstöðumanns hjá Arion banka, við starfi forstjóra Stefnis.
Undir árslok var Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir ráðin forstjóri Varðar og mun hún taka við starfinu 1. apríl 2023. Guðbjörg hefur starfað hjá Marel frá árinu 2011, síðast sem framkvæmdastjóri fiskiðnaðar og framkvæmdastjóri Marel á Íslandi. Áður hafði Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar, tilkynnt um starfslok sín eftir um sextán farsæl ár hjá félaginu.
Samningar um framtíð Blikastaðalandsins
Á árinu náðust samningar við Mosfellsbæ varðandi framtíð Blikastaðalandsins sem er í eigu Arion banka. Blikastaðaland er stærsta óbyggða landsvæði höfuðborgarsvæðisins og snýr samkomulagið að uppbyggingu sjálfbærrar byggðar í landi Blikastaða. Hverfið verður hannað frá grunni sem fjölbreytt og blönduð byggð þar sem fólk getur sinnt helstu erindum fótgangandi eða með almenningssamgöngum þar sem Borgarlínan verður í burðarhlutverki. Með því er stuðlað að betri nýtingu náttúrugæða, orku og innviða sem sýnir ábyrgð í umhverfismálum og tryggir lífsgæði komandi kynslóða. Í allri hönnun verður tekið mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að fjöldi íbúða verði um 3.700, blanda fjölbýlis og sérbýlis, auk 150 íbúða fyrir 55 ára og eldri, skóla, íþróttaaðstöðu og atvinnuhúsnæðis. Samkomulagið felur í sér að Blikastaðaland ehf., sem er í eigu Arion banka, taki þátt í uppbyggingu svæðisins og mun Mosfellsbær fá allt landið endurgjaldslaust til eignar eftir því sem þróun svæðisins vindur fram.
Útgáfa áhrifa- og úthlutunarskýrslu
og skýrslu um fjármagnaðan útblástur
Í ársbyrjun gaf Arion banki út sína fyrstu áhrifa- og úthlutunarskýrslu fyrir græna fjármálaumgjörð bankans. Í skýrslunni má sjá úthlutun fjármuna sem aflað hefur verið með grænum skuldabréfaútgáfum og grænum innlánum árið 2021 ásamt umfjöllun um jákvæð umhverfis- og loftslagsáhrif grænna verkefna Arion banka.
Bankinn birti sína fyrstu skýrslu um fjármagnaðan útblástur í árslok 2022 sem byggir á aðferðafræði Partnership for Carbon Accounting Financials (PCAF). Mat á umfangi losunar gróðurhúsalofttegunda sem fjármögnuð er í gegnum lánveitingar og fjárfestingar er forsenda þess að bankinn geti sett sér markmið varðandi samdrátt í losuninni og er það næsta skref.
Efnahagur
Eignir bankans jukust um 12% á árinu 2022 og námu í árslok 1.470 milljörðum króna. Munar þar mestu um 16% aukningu í lánum til viðskiptavina.
Á árinu hélt bankinn áfram að vinna að aukinni fjölbreytni fjármögnunarkosta, meðal annars með útgáfu grænna og sértryggðra skuldabréfa. Í janúar 2022 gaf Arion banki út nýjan flokk grænna skuldabréfa í krónum. Nýi flokkurinn fékk góðar viðtökur og voru alls seld bréf fyrir um 6 milljarða króna til breiðs hóps innlendra fjárfesta. Bankinn gaf einnig út sértryggð skuldabréf fyrir 10,1 milljarða króna. Í desember 2022 voru svo gefnir út tveir flokkar víkjandi skuldabréfa í krónum sem telja til eigin fjárþáttar 2 (e. Tier 2) fyrir samtals 12,1 milljarða.
Í apríl 2022 gaf Arion banki út sértryggð skuldabréf í evrum að upphæð 200 milljónir evra. Um var að ræða viðbótaútgáfu við 300 milljón evra skuldabréf til fimm ára sem gefin voru út haustið 2021 og er heildarstærð útgáfunnar nú 500 milljónir evra. Í september 2022 gaf Arion banki út sína aðra grænu skuldabréfaútgáfu í evrum. Grænu skuldabréfin voru til þriggja ára að upphæð 300 milljónir evra.
Innlán viðskiptavina eru áfram mikilvægasti þátturinn í fjármögnun bankans og jukust þau um 15% á árinu.
Umtalsverð breyting varð á árinu á þeim eignum sem Arion banki hefur haft í söluferli. Salan á Valitor gekk í gegn um mitt ár eftir að samþykki eftirlitsaðila lá fyrir. Helstu eignir Stakksbergs, lóð og verksmiðjuhúsnæði í Helguvík á Reykjanesi, voru um áramótin fluttar yfir í Landey, fasteignaþróunarfélag Arion banka. Arion banki stefnir á sölu á þeim innviðum sem eru í Helguvík, annaðhvort til flutnings eða með það að markmiði að koma þar upp annars konar starfsemi en kísilframleiðslu. Sólbjarg seldi á árinu rekstur, vörumerki og lén Heimsferða ehf. Sólbjarg er í dag minnihlutaeigandi í Ferðaskrifstofu Íslands í gegnum eignarhald sitt á Heimbjargi ehf.
Viðurkenningar
Hið virta fjármálatímarit The Banker, sem gefið er út af The Financial Times, valdi Arion banka sem banka ársins á Íslandi árið 2022, annað árið í röð.
Arion banki hlaut einkunnina „framúrskarandi“ í áhættumati Reitunar á umhverfis- og félagsþáttum og stjórnarháttum (UFS) hjá bankanum, fékk 90 stig af 100 mögulegum. Er þetta þriðja árið í röð sem bankinn fær þessa einkunn.
Sustainalytics, sem sérhæfir sig í mati á áhættu vegna UFS þátta í starfsemi fyrirtækja, framkvæmdi áhættumat á Arion banka á árinu. Að mati Sustainalytics er Arion banki í hópi þeirra banka sem standa sig hvað best í þessum málum á heimsvísu. Á skalanum 0-100 hlaut bankinn 12 stig þar sem færri stig þýða minni áhættu og er það því mat Sustainalytics að lítil hætta sé á verulegu fjárhagslegu tjóni vegna UFS þátta hjá bankanum. Arion banki er í efstu 6% þegar horft er til ríflega eitt þúsund banka um heim allan sem Sustainalytics hefur metið og í efstu 4% þegar horft er til um 400 svæðisbundinna banka.
Arion banki fékk á árinu frumkvöðlaverðlaun frá The Covered Bond Report fyrir fyrstu íslensku útgáfu sértryggðra skuldabréfa í evrum sem fram fór á árinu 2021.
Arion banki, Vörður og Stefnir fengu endurnýjaða viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum að undangengnu formlegu mati sem byggir á leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland gefa út.
Arion banki var í fyrsta sæti á lista yfir stór fyrirtæki hér á landi sem Viðskiptablaðið og Keldan telja til fyrirmyndarfyrirtækja í rekstri, en fyrirtækin þurfa að uppfylla ströng skilyrði til að komast á listann.