Efnahags­umhverfið

Íslensku hagkerfi óx ásmegin árið 2022 þrátt fyrir krefjandi efnahagslegar aðstæður. Þjóðin kvaddi allar sóttvarnartakmarkanir í upphafi árs en gleðitíðindin reyndust skammgóður vermir þar sem Rússer réðust stuttu síðar inn í Úkraínu og hrundu af stað atburðarás sem ekki sér enn fyrir endann á. Þó að stríðið hafi sett mark sitt á árið verður þess ekki síður minnst sem árs verðbólgu og vaxtahækkana – um heim allan. Þrátt fyrir það reyndist efnahagsbatinn hér á landi hraður og talsvert kraftmeiri en væntingar stóðu til í upphafi árs.

Kröftugur hagvöxtur í alþjóðlegum ólgusjó

Árið 2022 fór hægt af stað. Í upphafi árs reið ómíkronbylgja COVID-19 yfir þjóðina, ríkisstjórnin greip í kjölfarið til mjög harðra og íþyngjandi sóttvarnaraðgerða, og útlit var fyrir brokkgengan efnahagsbata. Sóttvarnaraðgerðirnar stóðu þó stutt yfir og tæpum mánuði síðar var öllum takmörkunum, bæði innanlands og á landamærunum, aflétt. Hinu margumtalaða hjarðónæmi var náð, staðreynd sem féll alfarið í skuggann af innrás Rússa í Úkraínu. Alþjóðasamfélagið brást við með víðtækum efnahagsþvingunum gegn Rússlandi, hrávöruverð hækkaði skarpt og verðbólgan, sem var farin að láta á sér kræla eftir sögulega slaka peningastefnu, færðist í vöxt. Íslenskt hagkerfi fór ekki varhluta af þessari þróun en í ljósi þess að Ísland er hrávöruútflytjandi, fyrst og fremst í gegnum iðnaðarvörur og sjávarútveg, fundum við okkur í þeirri einstöku stöðu að viðskiptakjör þjóðarbúsins bötnuðu. Því til viðbótar náði ferðaþjónustan vopnum sínum á nýjan leik enda var áhugi á Íslandsferðum mikill eftir tveggja ára ferðatakmarkanir og ferðamenn flykktust til landsins.

Þrátt fyrir brösuga byrjun sigldi þjóðarskútan seglum þöndum árið 2022. Kröftugur einkaneysluvöxtur og viðspyrna ferðaþjónustunnar voru drifkraftar hagvaxtar, en fjárfesting önnur en íbúðafjárfesting lagði einnig hönd á plóg. Þrátt fyrir blómlegan útflutning og 150% aukningu í komum ferðamanna milli ára varð viðskiptahalli raunin, enda neysla heimilanna í hæstu hæðum. Ferðagleði landans leyndi sér ekki og setti svip sinn á árið – bæði hagtölurnar og þjóðfélagsumræðuna. Orkukreppan sem nú geisar í Evrópu, með tilheyrandi verðbólgu og kaupmáttarrýrnun, hefur hlutfallslega lítil áhrif á íslensk heimili þökk sé hreinni og endurnýjanlegri orku hér á landi. Neyslu heimilanna óx þar af leiðandi fiskur um hrygg og féll hvert metið á fætur öðru. Útlit er fyrir að hagvöxtur ársins verði á milli 6-7%, sem er mun betri niðurstaða en spáð var í upphafi árs.

Þrátt fyrir að íslenskt hagkerfi hafi komist nokkuð klakklaust í gegnum árið er mikil óvissa í efnahagsmálum. Enginn er eyland í þessum efnum og þótt Ísland sé vissulega eyja mun efnahagsþróunin hér á landi ráðast að miklu leyti af örlögum okkar helstu viðskiptalanda, sem mörg hver standa frammi fyrir efnahagsþrengingum á nýju ári.

Hagvöxtur
%
Heimildir: Hagstofa Íslands, Arion banki. *Fyrstu níu mánuðir ársins
Hlutdeild einstakra liða í hagvexti
Magnbreyting frá fyrra ári
Heimildir: Hagstofa Íslands, Arion banki.

Skömmu eftir að öllum sóttvarnartakmörkunum var aflétt hóf ferðaþjónustan stórsókn sína. Ísland var svo gott sem uppselt yfir sumarmánuðina og reyndist hraður viðsnúningur áskorun fyrir greinina, ekki síst þegar kom að mönnun í lausar stöður. Svo fór að alls sóttu 1,7 milljónir ferðamanna landið heim á árinu, sem jafngildir 150% aukningu milli ára og 86% af fjöldanum árið 2019. Vert er að taka fram að eftir að áhrif faraldursins tóku að fjara út með hækkandi sólu varð fjöldi ferðamanna áþekkur árinu 2019. Ekki síður mikilvægt er að dvalartími og meðalútgjöld ferðamanna jukust – verðmætari ferðamenn sóttu landið heim. Horfurnar fyrir yfirstandandi ár eru góðar, bókunarstaðan sterk og virðist sem áhugi á Íslandi sem áfangastað hafi ekki dvínað.

Verðmætaaukning einkenndi ekki einvörðungu ferðaþjónustuna á nýliðnu ári, þar sem útflutningsverðmæti bæði sjávarafurða og álframleiðslu náði áður óþekktum hæðum. Báðar greinar stóðu frammi fyrir gríðarlegum afurðaverðhækkunum, en því til viðbótar skilaði stór loðnukvóti sér í einni verðmætustu loðnuvertíð síðari tíma. Þá vó verðhækkun sjávarafurða upp, og rúmlega það, skerðingu í þorskkvóta.

Fjöldi ferðamanna
Fjöldi (milljónir)
Heimildir: Ferðamálastofa
Hlutur í heildarútflutningi
%
Heimildir: Hagstofa Íslands, Arion banki. *Fyrstu níu mánuðir ársins

 

Þrátt fyrir að útflutningsvegir þjóðarbúsins hafi blómstrað lutu þeir í lægra haldi fyrir innflutningi. Ferðaþrá sólþyrstra Íslendinga virtust engin takmörk sett og náði hún hámarki í október, þegar tæpur fimmtungur þjóðarinnar hélt erlendis. Þótt neysla erlendis hafi borið uppi einkaneysluvöxtinn hélt neysla innanlands dampi, ekki síst þegar kom að nýjum bílum. Við það bættist aukinn fjárfestingarþungi og verðhækkanir, einkum á eldsneyti. Niðurstaðan var því 21 milljarðs króna viðskiptahalli þegar fyrstu níu mánuðir ársins eru teknir saman, sem fyrst og fremst má rekja til eins mesta vöruskiptahalla frá upphafi mælinga en halli á frumþáttatekjum, sem fellur til vegna batnandi rekstrarskilyrða álveranna, hafði einnig sitt að segja.

Viðskiptajöfnuður
% af VLF
Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Arion banki. * Fyrstu níu mánuðir ársins

 

Vaxandi viðskiptahalli reyndist krónunni óþægur ljár í þúfu og átti gengi krónunnar á brattann að sækja allan seinni hluta ársins. Ekki var þó við viðskiptahallann einan að sakast þar sem lausar eignir innlánsstofnana í erlendum gjaldmiðli jukust mikið frá miðju ári, aukinn þungi færðist í gjaldeyrisviðskipti lífeyrissjóðanna og framvirkum samningum, er hafði vaxið fiskur um hrygg fram á mitt ár, var mörgum hverjum lokað. Þar af leiðandi var fátt sem lagðist á sveif með krónunni ef frá er talið fjármagnsflæði vegna skráðra nýfjárfestinga og gjaldeyrisviðskipti Seðlabankans, sem hagaði seglum eftir vindi og kom bæði inn á kaup- og söluhlið markaðarins. Alls keypti bankinn erlendan gjaldeyri fyrir 34 milljarða króna – allt á fyrri hluta ársins – en seldi gjaldeyri fyrir 21 milljarð króna.

Mikið brimrót einkenndi gjaldeyrismarkaði um heim allan á síðasta ári og veiktust flestar myntir gagnvart bandaríkjadal. Þegar upp var staðið veiktist krónan um 10% gagnvart bandaríkjadal, um rúm 3% gagnvart evru en styrktist um tæp 2% gagnvart breska pundinu. Þar af leiðandi voru sveiflur í gengi íslensku krónunnar á liðnu ári óverulegar í sögulegu samhengi og ljóst að krónan nýtur góðs af ríflegum gjaldeyrisforða Seðlabankans, sem stóð í tæplega 900 milljörðum króna við árslok, og jákvæðri erlendri stöðu þjóðarbúsins (24% af VLF undir lok þriðja ársfjórðungs). Þjóðarbúið er nettó lánveitandi til útlanda, ekki lántaki líkt og forðum, og gjaldeyrisforði Seðlabankans er vel umfram öll viðmiðunarmörk, staða sem styrkir viðnámsþrótt þjóðarbúsins og dregur úr hættu á greiðslujafnaðarvanda.

Hrein erlend staða þjóðarbúsins
Án slitabúa bankanna, % af VLF
Heimildir: Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands
Gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum
Heimildir: Seðlabanki Íslands

 

Gengisveiking krónunnar, mikil verðbólga í okkar helstu viðskiptalöndum og hressilegar hrávöruverðshækkanir ollu töluverðri innfluttri verðbólgu. Samt sem áður voru innfluttar vörur ekki hálfdrættingur á við húsnæðisverð í framlagi til verðbólgunnar, enda hækkaði húsnæðisverð á landinu öllu um 21% milli ára. Hæst fór árstakturinn í tæp 25% í júlí, á sama tíma og verðbólgukúfurinn náði hámarki í 9,9% verðbólgu. Þótt hægt hafi á húsnæðisverðhækkunum á seinni hluta ársins reyndist vegur verðhjöðnunar torsóttari en upphaflega var ætlað, ekki síst vegna innlends kostnaðarþrýstings og launahækkana samhliða vaxandi innfluttri verðbólgu. Í árslok stóð verðbólgan i 9,6% og ljóst að hún verður þrálátari og erfiðari viðureignar en upphaflega var ætlað. Verðbólga mældist að meðaltali 8,3% árið 2022 en 6,1% sé húsnæðisliðurinn undanskilinn.

Þar sem vaxandi framleiðsluspenna, þaninn vinnumarkaður, þróttmikil innlend eftirspurn og mikil verðbólga fóru saman átti Seðlabankinn ekki annarra kosta völ en að hækka vexti, enda starfar bankinn á 2,5% verðbólgumarkmiði. Þá þótti ekki síður nauðsynlegt að grípa til harðra aðgerða til að styðja við kjölfestu verðbólguvæntinga, sem hefur gefið eftir í verðbólguumhverfinu. Alls hækkaði Seðlabankinn vexti um 4 prósentustig, úr 2% í 6%. Þrátt fyrir snarpt vaxtahækkunarferli voru raunvextir, miðað við meðaltal mismunandi mælikvarða á verðbólgu og verðbólguvæntingar, enn neikvæðir undir lok árs.

Vaxtahækkanir voru ekki eina meðalið sem Seðlabankinn beitti í viðleitni sinni til að koma böndum á húsnæðismarkaðinn. Fjármálastöðugleikanefnd bankans sá sig knúna til að lækka hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána fyrir fyrstu kaupendur og setja viðmið um vexti og hámarkslánstíma við útreikning greiðslubyrðar í reglum um hámark greiðslubyrðarhlutfalls fasteignalána, enda farið að bera á vaxandi ójafnvægi á markaðinum.

Þrátt fyrir hert peningalegt aðhald reyndust húsnæðisverðhækkanirnar lífseigari en flestir væntu en nýjustu tölur benda þó til þess að markaðurinn fari hratt kólnandi, samanber aukinn fjölda eigna til sölu, lengri sölutíma og hægari hækkunartakt.

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu í hlutfalli við undirliggjandi þætti
Vísitala, janúar 2011=100
Heimildir: HMS, Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Arion banki.
Auglýstar fasteignir til sölu og húsnæðisverð
Fjöldi og breyting milli ára
Heimildir: HMS, Seðlabanki Íslands, Hagstofa Íslands, Arion banki.
Stýrivextir Seðlabanka Íslands og verðbólga eftir eðli og uppruna
%
Heimildir: Hagstofa Íslands, Seðlabanki Íslands, Arion banki

 

Einkaneysla heimilanna lét verðbólgu og vaxtahækkanir sem vind um eyru þjóta og sló hvert metið á fætur öðru. Utanlandsferðir landsmanna, sem voru horn í síðu seðlabankastjóra, voru dráttarklár einkaneysluvaxtarins, en kaup á nýjum bílum, ekki síst rafbílum, settu einnig svip sinn á árið. Þrátt fyrir met einkaneyslu er hugarléttir að neyslan var ekki tekin að láni. Mikill sparnaður safnaðist upp í heimsfaraldrinum og hafa heimilin að einhverju leyti gengið á þann sparnað. Samt sem áður er sparnaðarhlutfall heimila enn yfir því sem það var að meðaltali fyrir farsóttina samkvæmt nýjasta mati Seðlabankans þar sem ráðstöfunartekjur hafa aukist langt umfram væntingar. Því til viðbótar má nefna að verðbólga hér á landi, og þar af leiðandi mæld kaupmáttarrýrnun, er ekki af sama toga og annars staðar í Evrópu þar sem orkukreppa hefur bein áhrif á útgjöld heimilanna. Á Íslandi, sem býr að jarðvarma og vatnsafli, er staðan allt önnur og endurspeglar verðbólgan því ekki sömu hækkun á framfærslukostnaði og í Evrópu, sem mildar áhrifin á einkaneysluna.

Aðstæður á vinnumarkaði hafa einnig stutt við einkaneysluna. Hraður bati á vinnumarkaði hefur farið fram úr björtustu vonum og hefur hagkerfið endurheimt öll þau störf er töpuðust í heimsfaraldrinum og rúmlega það. Skráð atvinnuleysi var 3,4% í desember, samanborið við 5,2% atvinnuleysi í upphafi árs og starfsmannaskortur aðeins einu sinni mælst meiri – árið 2007.

Efnahagsumhverfið og mikil spenna á vinnumarkaði settu svip sinn á kjaraviðræður sem gengu í garð undir lok árs. Eins og við var að búast voru deilurnar harðvítugar og einkenndust af hvössum yfirlýsingum beggja vegna samningaborðsins. Undir lok árs voru kjarasamningar sem ná til 80 þúsund einstaklinga farsællega leiddir til lykta. Samið var til skamms tíma og um nokkuð ríflegar launahækkanir. Samkvæmt mati aðalhagfræðings Arion banka er útlit fyrir að nafnlaun hækki um 7-8% á yfirstandandi ári, en hafa ber í huga að ekki hefur tekist að ljúka samningum fyrir alla á almennum vinnumarkaði og mikill fjöldi samninga á opinberum markaði losnar á fyrri hluta ársins 2023 og er matið því háð mikilli óvissu.

Einkaneysla og vísitala kaupmáttar launa
Breyting milli ára
Heimildir: Hagstofa Íslands, Arion banki. * Fyrstu níu mánuðir ársins
Skráð atvinnuleysi
%
Heimildir: Vinnumálastofnun


Ríkisfjármál hafa notið góðs af öflugri viðspyrnu og vaxandi innlendum umsvifum og dregur lánshæfiseinkunn ríkissjóðs dám af því. Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs hefur staðið óbreytt í gegnum heimsfaraldurinn en stærsta breytingin á síðasta ári var sú að Fitch breytti umsögn sinni úr neikvæðum horfum í stöðugar. Fitch og S&P meta lánshæfi ríkissjóðs fyrir langtímaskuldbindingar A á meðan Moody‘s metur lánshæfiseinkunnina A2. Öll matsfyrirtækin telja horfurnar stöðugar.

Fjárlög ársins 2022 voru samþykkt með 186 milljarða halla. Þegar líða tók á árið og innlendri eftirspurn óx ásmegin var ljóst að tekjuhlið ríkisfjármála myndi njóta góðs af. Samkvæmt áætlunum verður afkoma ríkissjóðs árið 2022 um 45 milljörðum króna betri en reiknað var með í upphafi árs. Þá er útlit fyrir nokkurn afkomubata milli ára, enda efnahagsaðstæður til þess fallnar að styðja við tekjumyndun ríkissjóðs. Afkoma ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum ársins 2023 batnar því um ríflega 20 milljarða króna milli ára. Neikvæð afkoma ríkissjóðs, einkum á tímum farsóttarinnar, hefur óhjákvæmilega leitt til ört hækkandi skulda. Gert er ráð fyrir að skuldahlutfallið samkvæmt skuldareglunni lækki á yfirstandandi ári, þróun sem rekja má til hagvaxtar og verðlagshækkana og byggir á þeirri forsendu að ekki verði vikið frá áformum um eignasölu, þá fyrst og fremst á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka.

Heildarjöfnuður ríkissjóðs
Milljarðar króna og hlutfall af VLF
Heimildir: Hagstofa Íslands, Fjármála- og efnahagsráðuneytið. * Að frátöldum óreglulegum og einskiptis tekju- og útgjaldaliðum.