Ávarp bankastjóra
Ársins 2022 verður helst minnst fyrir innrás Rússlands í Úkraínu, þær afleiðingar sem stríðið hefur fyrir fólkið í landinu og efnahagslegar afleiðingar þess í Evrópu. Í kjölfarið hefur sögulega há verðbólga hrjáð efnahagskerfi Evrópu, vextir hækkað skarpt og óróleiki einkennt eignamarkaði. Ísland er að mörgu leyti í vari fyrir áhrifum átakanna en við finnum engu að síður vel fyrir óróleika á verðbréfamörkuðum, bæði hér á landi og beggja vegna Atlantshafsins. Umhverfið var því krefjandi á árinu en engu að síður náðist mjög góður árangur í starfsemi bankans. Hagnaður bankans á árinu 2022 nam 25,4 milljörðum króna og arðsemi eiginfjár 13,7%, sem er yfir 13% arðsemismarkmiði bankans.
Við leggjum okkur fram um að vera góður samstarfsaðili fyrirtækja og heimila. Okkar hlutverk er að leggja þeim lið með þekkingu, reynslu og fjármagni og gera þeim kleift að ná markmiðum sínum – ná árangri. Saman stuðlum við að fjárfestingu, uppbyggingu og virkni markaða – framförum sem samfélagið allt nýtur góðs af. Við leggjum okkur fram um að nálgast öll verkefni af ábyrgð og skilja þarfir okkar viðskiptavina og samfélagsins sem við störfum í.
Bankastjóri Arion banka
Benedikt Gíslason
Stuðlað að auknu framboði íbúðarhúsnæðis
Skortur á framboði íbúðarhúsnæðis undanfarin ár hefur leitt til verðþrýstings á fasteignamarkaði og aukinnar verðbólgu. Arion banki náði á árinu mikilvægum áfanga þegar samningar tókust við Mosfellsbæ um uppbyggingu sjálfbærrar byggðar í Blikastaðalandinu. Landið er stærsta einstaka byggingarlandið á Íslandi og er í eigu Arion banka í gegnum félagið Blikastaðaland ehf. Gert er ráð fyrir að fjöldi íbúða þar verði um 3.700 talsins. Að auki fjármagnar Arion banki um þessar mundir byggingu um 1.600 íbúða.
Mikil umsvif í þjónustu við fyrirtæki
Arion banki vann á árinu með fjölmörgum fyrirtækjum að spennandi verkefnum. Meðal annars að skráningu Nova á markað, kaupum á 50% hlut í Annata, yfirtöku og fyrirhugaðri afskráningu Origo og hlutafjáraukningu og kauphallarskráningu Amaroq Minerals og Alvotech. Arion banki hefur komið að um 60% skráninga íslenskra fyrirtækja í kauphallir síðasta áratuginn. Góður lánavöxtur var til fyrirtækja eða um 23% og það þrátt fyrir að vel hafi gengið að selja lán frá okkur í takti við stefnu okkar um lánaveltu.
Heimilin fjárfesta þrátt fyrir hærra vaxtastig
Stýrivextir Seðlabanka Íslands hækkuðu á árinu um 4 prósentustig, úr 2% í 6%. Þetta skörp hækkun hefur vissulega áhrif á eftirspurn eftir lánsfjármagni. Engu að síður veittum við á árinu um 150 milljarða króna í íbúðalán og hjálpuðum þannig fjölda viðskiptavina að endurfjármagna eða festa kaup á nýju íbúðarhúsnæði. Um 10% af þeim óverðtryggðu íbúðalánum Arion banka sem eru með fasta vexti ljúka fastvaxtatímabilinu á árinu 2023. Það nemur aðeins um 3% af íbúðalánasafni bankans, en þá bjóðast viðskiptavinum nokkrir kostir, þ.e. þeir geta valið á milli verðtryggðra og óverðtryggðra lána sem og fastra eða breytilegra vaxta. Verðtryggðum lánum fylgir lægri greiðslubyrði og geta viðskiptavinir, ef þeir svo kjósa, stillt af sína greiðslubyrði með því að velja blandaða leið, þ.e. hafa hluta lánanna verðtryggðan og hluta óverðtryggðan. Það er óhætt að segja að aldrei hafi heimilum boðist jafn fjölbreytt úrval íbúðalána eins og síðustu misseri.
Eftirspurn eftir bílalánum Arion banka heldur áfram að aukast. Hefur lánasafnið vaxið um 65% á þremur árum og markaðshlutdeild bankans farið úr 15% í tæp 40%. Áhersla á rafrænar lausnir í bland við hraða og góða þjónustu hefur skilað sér í þessum góða vexti. Þinglýsingar bílalána eru nú orðnar rafrænar sem þýðir að bílalánaferlið okkar er nær 100% sjálfvirkt, frá umsókn til útgreiðslu.
Góður árangur á mörkuðum
Arion banki var með hæstu markaðshlutdeildina þegar kemur að veltu í kauphöllinni á árinu 2022, bæði í skuldabréfum og hlutabréfum. Er þetta sjöunda árið í röð sem bankinn er með mestu hlutabréfaveltuna.
Gott innflæði fjármuna var í eignastýringu og viðunandi ávöxtun miðað við markaðsaðstæður. Jafnframt var gott innflæði í sjóði Stefnis. Stýrir Stefnir þeim tveimur sjóðum sem höfðu hvað hæsta arðsemi á síðasta ári ásamt því að aðrir sjóðir Stefnis eru ofarlega í öllum eignaflokkum samkvæmt samanburði á vef Keldunnar. Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem er í rekstri hjá Arion banka, var valinn besti lífeyrissjóður Evrópuþjóða með færri en milljón íbúa af fagtímaritinu IPE.
Sterk heild – fjölbreytt þjónusta
Um mitt ár gekk salan á Valitor í gegn eftir nokkuð langt sölu- og samþykktarferli en samþykki eftirlitsaðila lá fyrir um mitt ár. Með sölunni má segja að fókus Arion samstæðunnar sé orðinn skýrari. Starfsfólk Varðar fluttist í höfuðstöðvar Arion banka í upphafi árs og er óhætt að segja að í dag vinnum við, starfsfólk Varðar, Stefnis og Arion banka, þéttar saman en áður. Ýmsir þættir í starfsemi Varðar hafa verið samþættir starfsemi bankans með sambærilegum hætti og hjá Stefni. Saman bjóða félögin þrjú fjölbreyttari fjármálaþjónustu en keppinautar okkar – viðskiptavinum okkar til góða. Styrkur samstæðunnar liggur einmitt í því hve öflug heild við erum, með fjölbreytt þjónustuframboð og stóran hóp viðskiptavina sem treystir okkur fyrir sínum fjármálum.
Bankatryggingar taka flugið
Með flutningi Varðar í höfuðstöðvar Arion banka og stórauknu samstarfi félaganna hafa skapast tækifæri til vaxtar fyrir bæði félög. Við leggjum sérstaka áherslu á að bjóða viðskiptavinum Arion banka að tryggja hjá Verði á hagstæðum kjörum. Allar helstu tryggingar Varðar eru nú fáanlegar í Arion appinu og þar geta viðskiptavinir nálgast greinargott yfirlit yfir sínar tryggingar. Gríðarleg tækifæri felast í okkar frábæra appi sem er afar öflug þjónustu- og söluleið.
Þrátt fyrir að rekstur tryggingafélaga hafi um margt verið þungur á árinu hefur iðgjaldavöxtur verið sterkur hjá Verði og á það bæði við um heimili og fyrirtæki. Viðskiptavinum heldur áfram að fjölga og markaðshlutdeild að aukast. Ánægjulegt er að þau markmið sem við settum okkur í upphafi árs varðandi sölu trygginga í gegnum sölu- og þjónustuleiðir bankans náðust.
Stafræn, þægileg og persónuleg þjónusta
Arion banka appið var sjötta árið í röð valið besta bankaappið á Íslandi af viðskiptavinum bankanna samkvæmt könnun MMR. Á undanförnum árum hefur Arion banki kynnt á fjórða tug stafrænna nýjunga. Með áherslu á stafræna þjónustu höfum við gert bankaviðskipti og fjármál einstaklinga og fyrirtækja aðgengilegri og þægilegri. Samkvæmt erlendri samanburðarrannsókn er Arion banki í hópi með fremstu bönkum heims í stafrænni þjónustu.
Þótt góð stafræn þjónusta feli í sér mikið hagræði og þægindi fyrir viðskiptavini þá leggjum við ekki síður áherslu á góða persónulega þjónustu í höfuðstöðvum bankans og útibúum okkar víða um land. Viðskiptavinir geta fengið faglega ráðgjöf varðandi sparnað, íbúðalán og lífeyrismál – hluti sem skipta okkur öll miklu. Við höfum einnig einsett okkur að veita umsvifamiklum einstaklingum framúrskarandi góða þjónustu. Þar er um kröfuharðan hóp viðskiptavina að ræða sem hefur þörf fyrir fjölbreytta og persónulega fjármálaþjónustu. Því settum við á laggirnar það sem við köllum Premíu þjónustu Arion banka og höfum orðið vör við mikla ánægju meðal þeirra viðskiptavina sem hefur verið boðið að vera hluti af henni.
Frumkvöðlar í fjármögnun – jákvætt lánshæfismat frá Moody‘s
Einn stærsti kostnaðarliður okkar snýr að fjármögnun. Við erum í ágætri stöðu í dag þar sem engin aðkallandi endurfjármögnun er fram undan á árinu 2023. Við höfum alltaf verið framsýn og skapandi á sviði fjármögnunar og í haust fengum við frumkvöðlaverðlaun frá The Covered Bond Report fyrir fyrstu íslensku útgáfu sértryggðra skuldabréfa í evrum sem við fórum í á árinu 2021. Við fórum í tvær grænar skuldabréfaútgáfur 2022 og eru þær nú alls orðnar fjórar frá því að græn fjármálaumgjörð bankans kom út. Það mun einnig koma okkur til góða að hafa á árinu fengið jákvætt lánshæfismat frá Moody‘s, fyrst af stóru bönkunum.
Árangur í rekstri
Þegar allt kemur til alls var árið 2022 gott ár í okkar starfsemi. Arðsemi eiginfjár er yfir 13% markmiði okkar, nam 13,7%. Jafnframt náðum við nær öllum rekstrarmarkmiðum ársins. Árangur bankans undanfarin ár hefur vakið eftirtekt og við höfum unnið til þó nokkurra verðlauna. Nú síðast vorum við valin banki ársins á Íslandi af The Banker, fjármálatímariti útgefnu af The Financial Times, annað árið í röð. Á sviði sjálfbærni erum við í hópi þeirra fjármálafyrirtækja á heimsvísu sem að mati Sustainalytics standa sig hvað best og aftur fengum við framúrskarandi einkunn hjá Reitun þegar kemur að umhverfis- og félagsþáttum og stjórnarháttum, 90 stig af 100 mögulegum.
Þinn árangur
Við viljum hjálpa viðskiptavinum okkar að ná árangri. Árangri sem leiðir til framfaraskrefa fyrir þá og það samfélag sem við lifum í. Í því felst okkar árangur. Við viljum stöðugt bæta okkur, gera betur í dag en í gær, treysta samband okkar við viðskiptavini og verða betur í stakk búin til að þjóna þeim. Við viljum byggja upp traust viðskiptasamband til langs tíma.
Við horfum bjartsýn fram á veginn og erum með metnaðarfull markmið og skýra framtíðarsýn.
Ég þakka samstarfsfólki og stjórn bankans innilega fyrir árangursríkt samstarf á árinu 2022.