Helstu fjárhags­niðurstöður

Hagnaður Arion banka samstæðunnar á árinu 2022 nam 25,4 milljörðum króna samanborið við 28,6 milljarða króna á árinu 2021. Arðsemi eigin fjár var 13,7% en 14,7% á árinu 2021. 

Á árinu 2022 voru hreinar fjármunatekjur umtalsvert lakari en á fyrra ári, ekki síst vegna erfiðra markaðsaðstæðna. Þá voru jákvæðar virðisbreytingar útlána verulega lægri en á fyrra ári. Grunnreksturinn er hins vegar sterkari með hærri hreinum vaxta- og þóknanatekjum auk þess sem kostnaður hækkaði minna en almennt verðlag.

Hagnaður ársins
Milljarðar króna / %

Rekstrartekjur

Rekstrartekjur námu 57,2 milljörðum króna samanborið við 58,2 milljarða króna á árinu 2021, sem er um 2% lækkun milli ára.

Hreinar vaxtatekjur hækkuðu um 25,6% frá árinu 2021. Vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna var 3,1% samanborið við 2,8% á árinu 2021. Meðalstaða vaxtaberandi eigna hækkaði um 144 milljarða króna milli ára eða sem nemur um 12,5%, einkum útlán, en á sama tíma hækkuðu vaxtaberandi skuldir um 150 milljarða króna eða um 15,1%, einkum innlán og lántaka.

Vaxtahækkunarferli Seðlabanka Íslands hófst í maí 2021, eftir að vextir höfðu verið í sögulegu lágmarki frá seinni hluta árs 2020. Meginvextir Seðlabankans hækkuðu úr 2% í ársbyrjun í 6% í árslok, sem hafði umtalsverð áhrif á bæði eigna- og skuldahlið bankans. Jafnframt hefur verðbólga verið nokkuð há undanfarin misseri.

Bankinn gerir ráð fyrir vaxtamun upp á 2,9%-3,2% við núverandi aðstæður en nokkur óvissa ríkir um framhaldið þar sem samkeppni um innlán og kostnaður við fjármögnun á mörkuðum fer hækkandi. Jafnframt er kostnaður mjög sveiflukenndur um þessar mundir.

Hreinar vaxtatekjur og vaxtamunur
Milljarðar króna / %

 

Hreinar þóknanatekjur hækkuðu um 1,4 milljarða króna eða um 9,5% á árinu 2022 samanborið við 2021. Aukningin kemur frá flestum deildum bankans en er hvað mest í þóknunum af kortum, sem er að hluta til vegna tekna frá Valitor sem áður eyddust út við gerð samstæðu, og í tekjum af markaðsviðskiptum, þar sem verðbréfamiðlun bankans er með mestu veltu í bæði hlutabréfum og skuldabréfum. Tekjur af lánum drógust nokkuð saman á árinu, eftir mjög sterkt ár í lækkandi vaxtaumhverfi á árinu 2021. Tekjur af eignastýringu eru mjög sterkar þrátt fyrir lækkun verðbréfa á mörkuðum og innflæði eigna í stýringu var talsvert á árinu.

Hreinar þóknanatekjur
Milljarðar króna

 

Hreinar tekjur af tryggingum námu 2,6 milljörðum króna á árinu 2022 samanborið við 3,4 milljarða króna á árinu 2021, sem samsvarar 24% lækkun. Tryggingaiðgjöld hækkuðu um 10,2% frá 2021 en hins vegar hækkaði tjónakostnaður um 22,7%, en árið var nokkuð þungt í tjónum, m.a. vegna veðurfars. Samsett hlutfall á árinu 2022 nam 99,2% samanborið við 93,2% á árinu 2021, sem er hæsta samsetta hlutfall félagsins frá sameiningu við Okkar líf á árinu 2017.

Hreinar tekjur af tryggingum og samsett hlutfall
Milljarðar króna / %

 

Hreinar fjármunatekjur voru neikvæðar sem nam 3,1 milljörðum króna á árinu 2022, sem er verulegur viðsnúningur frá fyrra ári er tekjur voru jákvæðar um 3,4 milljarða króna í mjög hagstæðum markaðsaðstæðum á innlendum og erlendum verðbréfamörkuðum. Árið 2022 var hins vegar erfitt bæði í hlutabréfum og skuldabréfum. Þá gjaldfærði bankinn um 1,9 milljarða króna vegna skekkju í meðferð á skuldabréfum á gangvirði í gegnum heildarafkomu. Skekkjan hafði ekki áhrif á eigið fé bankans.

Hreinar fjármunatekjur
Milljarðar króna

 

Aðrar rekstrartekjur námu 1,3 milljörðum króna samanborið við 1,8 milljarða króna á árinu 2021, sem jafngildir 41% lækkun. Hagnaður af sölu fasteigna, sem áður höfðu verið í rekstri bankans, fasteigna sem bankinn hafði leyst til sín sem fullnustueignir og hagnaður af sölu eignarhluta bankans í Auðkenni höfðu mestu áhrif á aðrar rekstrartekjur á árinu 2022.

Aðrar rekstrartekjur
Milljarðar króna

Rekstrarkostnaður

Rekstrarkostnaður nam samtals 26,9 milljörðum króna samanborið við 25,9 milljarða króna á árinu 2021, sem samsvarar um 4% hækkun milli ára. Kostnaðarhlutfallið var 47,0% á árinu 2022 samanborið við 44,4% árið 2021. Hlutfall kostnaðar af kjarnatekjum nam 45,6% samanborið við 51,6% á árinu 2021. Hækkun í rekstrarkostnaði milli ára er talsvert undir hækkun verðlags en er einkum vegna launakostnaðar.

Laun og launatengd gjöld námu 15,9 milljörðum króna sem er 8,3% hækkun frá fyrra ári. Sú hækkun er tilkomin vegna fjölgunar starfsmanna, eftir að bankinn ákvað að taka til sín á ný rekstur tölvukerfa, sem hafði verið útvistað frá 2016. Stöðugildi hjá samstæðunni voru 781 í árslok en 751 í árslok 2021, sem samsvarar um 4% fjölgun milli ára. Áætlaður kostnaður við kaupaukakerfi nam 1,6 milljörðum króna á árinu 2022 samanborið við 1,5 milljarða króna árið áður.

Annar rekstrarkostnaður nam 11,1 milljörðum króna á árinu 2022 sem er lækkun um 1,6% frá 2021. Lækkunin milli ára er einkum vegna breytinga á lögum um Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta, en frá 1. apríl 2022 þurftu innlánsstofnanir ekki lengur að greiða í sjóðinn. Þá var lækkun á kostnaði af upplýsingatækni, þar sem bankinn hefur í meira mæli tekið til sín þjónustu sem áður hafði verið útvistað.

Rekstrarkostnaður / kostnaðarhlutfall
Milljarðar króna / %

 

Hrein virðisbreyting var jákvæð um 144 milljónir króna á árinu 2022 samanborið við 3,2 milljarða á árinu 2021. Jákvæð virðisbreyting á árinu 2021 var einkum tilkomin vegna bakfærslu á sérstakri virðisbreytingu tengdri heimsfaraldri eftir að dró úr óvissu vegna hans. Á árinu 2022 er jákvæð virðisbreyting einkum tilkomin vegna innheimtu á lánum sem áður höfðu verið niðurfærð eða afskrifuð.

Tekjuskattur nam 9,8 milljörðum króna samanborið við 6,8 milljarða króna árið 2021 sem samsvarar 45% hækkun milli ára. Tekjuskattur, eins og hann er settur fram í ársreikningi, samanstendur af 20% tekjuskatti af hagnaði og 6% sérstökum fjársýsluskatti sem lagður er á hagnað fjármálafyrirtækja umfram einn milljarð króna. Virkt tekjuskattshlutfall var 34,3% samanborið við 19,9% árið 2021. Tekjuskattshlutfall sveiflast einkum vegna breyttrar samsetningar á tekjum, þar sem mismunandi hlutfall tekna er af söluhagnaði og virðishækkun hlutabréfa sem ekki er skattskyld. Til viðbótar við tekjuskatt greiða Arion banki og önnur stærri íslensk fjármálafyrirtæki bankaskatt (sem er 0,145% á skuldir umfram 50 milljarða króna) og 5,5% fjársýsluskatt af launum starfsmanna fjármálafyrirtækja. Samantekt ofangreindra skatta má sjá á myndinni hér fyrir neðan.

Skattar
Milljarðar króna

 

Hagnaður af starfsemi til sölu nam 6,5 milljörðum króna á árinu 2022 samanborið við 1,4 milljarða króna hagnað á árinu 2021. Á miðju ári 2022 var gengið frá sölu Valitor til Rapyd fyrir um 14,6 milljarða króna og var hagnaður af sölunni 5,6 milljarðar króna. Jákvæð áhrif af rekstri Valitor á fyrri hluta ársins námu um 1,1 milljarði króna. Hagnaður varð af sölu eigna Sólbjargs upp á um 0,4 milljarða króna en tap varð af eignum Stakksbergs vegna rekstrarkostnaðar og virðisbreytinga upp á um 0,5 milljarða króna. Allar þessar eignir hafa nú ýmist verið seldar eða endurflokkaðar í bókum bankans.

Efnahagsreikningur

Eignir

Heildareignir samstæðu Arion banka hækkuðu um 12% frá árslokum 2021, þar sem hækkun á lánum til viðskiptavina og aukning lausafjár var helsta ástæða breytinga.

Sjóður og innstæður hjá Seðlabanka Íslands og lán til lánastofnana námu 159,6 milljörðum króna í árslok 2022 og hækkuðu um 60,3 milljarða króna eða um 60,7% frá árslokum 2021. Lausafjárstaða hefur einkum breyst vegna aukinna innlána á árinu 2022 en að því frátöldu er lausafjárstýring meginskýring breytinga á þessum liðum.

Lán til viðskiptavina námu 1.084,8 milljörðum króna í árslok 2022 sem er um 15,9% hækkun frá árslokum 2021. Lán til fyrirtækja jukust um 22,6% á árinu 2022, en eftirspurn fyrirtækja eftir nýjum lánum hefur verið nokkur í flestum atvinnugreinum. Lán til fyrirtækja eru um 46% lánabókarinnar í árslok, voru 44% í árslok 2021 og er dreifing fyrirtækjalána í takt við efnahagsumhverfið. Lán til einstaklinga jukust um 10,6% á árinu þar sem íbúðalán eru ráðandi hluti og eru í árslok 47,3% lánabókarinnar, lækka úr 49,5% í árslok 2021.

Lán til viðskiptavina eftir atvinnugreinum
%

 

Heilbrigði lánabókarinnar er áfram mjög gott. Hlutfall vandræðalána, sem skilgreind hafa verið sem lán með sértæka niðurfærslu, var í árslok 2022 1,2% og lækkaði úr 1,9% í árslok 2021. Með hækkandi vaxtastigi er ekki útilokað að vanskil aukist en sú þróun er ekki komin fram, enn sem komið er.

Lán til viðskiptavina
%

 

Verðbréfaeign nam 193,3 milljörðum króna í árslok 2022 samanborið við 225,7 milljarða króna í árslok 2021. Lækkunin er fyrst og fremst í skuldabréfaeign og tengist einkum lausafjárstýringu. Einnig lækka bréf sem bankinn á til áhættuvarna talsvert, sem er viðbúið þegar hlutabréfamarkaðir hafa verið á niðurleið. Þá hefur bankinn unnið markvisst í að lækka stöðu sína í óskráðum hlutabréfum og steig stór skref í þá átt á árinu.

Verðbréfaeign
Milljarðar króna

 

Eignir og starfsemi til sölu námu 61 milljón króna í árslok samanborið við 16,0 milljarða króna í árslok 2021. Dótturfélagið Valitor hf. og eignir úr dótturfélögunum Stakksberg ehf. og Sólbjarg ehf. voru seldar eða endurflokkaðar á árinu og því eru einungis fasteignir sem bankinn sjálfur heldur á í kjölfar fullnustu í þessum flokki eigna.

Skuldir og eigið fé

Skuldir samstæðu Arion banka jukust um 14,5% frá árslokum 2021. Eigið fé lækkaði vegna endurkaupa á eigin bréfum og arðgreiðslu, samtals að fjárhæð 32,3 milljarðar króna, en hækkaði vegna 25,4 milljarða króna afkomu ársins.

Skuldir og eigið fé
Milljarðar króna

 

Innlán frá viðskiptavinum námu 755,4 milljörðum króna í árslok 2022 og jukust um 15,2% frá árslokum 2021. Hlutfall lána á móti innlánum var 144% í árslok 2022 og hækkaði á árinu úr 143%, en umtalsverður lánavöxtur varð á árinu. Samsetning innlána hefur þróast með hagfelldum hætti á þann veg að stærri hluti innlána er nú frá einstaklingum, smærri fyrirtækjum og fyrirtækjum með önnur viðskipti hjá bankanum en hlutfall stofnanafjárfesta hefur lækkað. Innlán eru, nú sem áður, mikilvægasta fjármögnun bankans en búast má við aukinni samkeppni á innlánamarkaði í hækkandi vaxtaumhverfi.

Innlán
Milljarðar króna

 

Lántaka bankans nam 392,6 milljörðum króna í árslok 2022, sem er 10,1% hækkun frá árslokum 2021. Hækkunin er einkum vegna nýrrar útgáfu, bæði sértryggðra skuldabréfa í krónum og evrum, sem og grænnar útgáfu í krónum og evrum. Endurgreiðsluferli lántöku er mjög hagstætt, ekki síst við núverandi aðstæður á fjármálamörkuðum, og bankinn stendur vel þegar kemur að endurfjármögnun sem sterkur útgefandi sértryggðra bréfa á íslenskum markaði og reglulegur útgefandi á alþjóðlegum mörkuðum.

Víkjandi lántaka nam 47,3 milljörðum króna í árslok samanborið við 35,0 milljarða króna í árslok 2021. Í desember gaf bankinn út víkjandi skuldabréf í krónum (Tier 2) fyrir samtals 12,1 milljarða króna. Útgáfan var gerð til að mæta gjalddögum bréfa í nóvember 2023 og á árinu 2024.

Eigið fé bankans nam 188,3 milljörðum króna í árslok 2022 samanborið við 194,6 milljarða í árslok 2021. Breytinguna má einkum skýra með afkomu ársins að fjárhæð 25,4 milljarðar króna en til lækkunar koma kaup á eigin hlutabréfum bankans og arðgreiðsla, samtals að fjárhæð 32,3 milljarðar króna. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 hjá bankanum nam 18,8% í lok árs 2022, samanborið við 19,6% í árslok 2021. Vogunarhlutfall var 11,8% í árslok 2022 samanborið við 12,6% í árslok 2021 en þrátt fyrir lækkun er það mjög hátt í öllum samanburði á alþjóðlegum bankamarkaði. Við útreikning eignfjárhlutfalla er tekið tillit til fyrirhugaðrar arðgreiðslu að fjárhæð um 12,5 milljarðar króna í kjölfar aðalfundar í mars 2023 og fyrirhugaðra endurkaupa að fjárhæð 3,3 milljarðar króna á næstu vikum, sem Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands gaf heimild fyrir á árinu 2022. Bankinn hefur sett sér markmið um að eigið fé sé að jafnaði 1,5-2,5 prósentustigum umfram eiginfjárkröfur eftirlitsaðila og er núverandi staða um 3 prósentustigum umfram markmið, eða sem samsvarar um 4,5-13,3 milljörðum króna.